ImageHalaleikhópurinn hefur fengið Ármann Guðmundsson til liðs við sig og ætlar í samstarfi við hann að skella á fót 20 klukkustunda leiklistarnámskeiði. Kennt verður í tvær stundir í senn og reynt að kenna 4 stundir um helgar. Fyrsta kvöldið verður haldið 8. nóvember klukkan 19:00. Á þeim fundi mun Ármann fara yfir framhaldið og finna út hvaða tími hentar flestum. Námskeiðið er fyrir alla, byrjendur sem lengra komna. Tilvalið að byrja í leikhópnum með því að fara á þetta námskeið!

Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig geta hringt í síma 552-9188 eða sent tölvupóst á hannagull@simnet.is Námskeiðið verður haldið í okkar litla og notalega leikhúsi sem við nefnum „Halann“ og er staðsett í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12, gengið inn að norðanverðu.

Af hverju Halaleikhópurinn?
Fyrir tólf árum síðan hittust nokkrir aðilar og ræddu sín á milli að það væri ótækt að fatlaðir einstaklingar gætu ekki fengið útrás á leiksviðinu. Fengið stór og góð hlutverk, eins og t.d. Hamlet, Kerlinguna í Gullna Hliðinu, Andreévnu í Kirsuberjagarðinum, Makka Hníf í Túskildingsóperunni svo dæmi séu tekin. Upp úr þessum hugleiðingum varð Halaleikhópurinn stofnaður árið 1992. Strax í upphafi var ákveðið að kjörorð hópsins væri „leiklist fyrir alla“ og hefur hann síðan starfað á þeim forsendum. Hver og einn, fatlaður sem ófatlaður hefur jafna möguleika innann hópsins. Allir velkomnir!

Fjölbreyttur hópur
Þar sem Halinn er samansettur af ólíkum einstaklingum verður fjölbreytnin meiri og þar af leiðandi túlkunin. Reynsluheimur fatlaðra er annar en þeirra sem eru ófatlaðir og svo öfugt. Segja má að hópurinn í allri sinni breidd sé birtingarform þess samfélags sem við viljum sjá í „besta heimi allra heima“.

Leiklistin og allt í kringum hana…
Sá sem er svo heppin að fá að taka þátt í leiklist og í því ferli sem það felur í sér, kemst ekki hjá því að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hver hann er. Til þess að geta skapað og túlkað persónu þarf einstaklingurinn að geta sett sig í spor annarra, tjáð gleði, sorg o.s.frv. Leiklistin er ekki eingöngu leikari á sviði heldur einnig hópurinn sem vinnur að sameiginlegu markmiði þar sem allir leggjast á eitt. Samt þarf og fær einstaklingurinn að njóta sín á eigin forsendum. Með því styrkist sjálfsmynd og framtakssemi hans gerir það að verkum að hann eða hún verður færari um að takast á við lífið og tilveruna. Ekki má þó gleyma gamla orðatiltækinu „Maður er manns gaman“. Í kringum leiklistina skapast svo ótrúlega mörg störf þannig að ALLIR geta fundið eitthvað við sitt hæfi.