SÍðastliðna helgi opnaði Ungmennafélag Reykdæla kaffileikhús sitt í Logalandi. Á dagskrá eru tveir einþáttungar, “Flugfreyjuþáttur” og “Er það ég” eftir Kristínu Gestsdóttur, nokkur sönglög úr smiðju Magnúsar Eiríkssonar og rúsínan í pylsuendanum er svo leikritið “Nú fljúga hvítu englarnir” eftir Örnólf Guðmundsson ráðsmann í Reykholti. Leikritið segir frá fullorðnum sveitapresti, nokkuð ölkærum, og samskiptum hans við sóknarbörn sín, heimilisfólk og hið kirkjulega yfirvald. Þetta er frumflutningur á verkinu. Alls taka rúmlega 20 manns þátt í sýningunni, leikarar, söngvarar, tónlistarmenn og tæknifólk.

Leikstjóri er Steinunn Garðarsdóttir á Grímsstöðum. Næstu sýningar eru fimmtudaginn 15. marsl, föstudaginn 16. mars og laugardaginn 17. mars næstkomandi. Sýningar hefjast kl. 21:00 og miðapantanir eru í síma 846 5152

Sveinbjörn Eygjólfsson fjallaði um sýninguna í Skessuhorni:

Undirritaður brá sér í “kaffihúsið” Logaland sl. laugardagskvöld og fylgdist með uppfærslu leikdeildar Ungmennafélags Reykdæla á tveimur einþáttungum eftir Kristínu Gestsdóttur, söngdagskrá úr verkum Magnúsar Eiríkssonar og frumflutningi á verki Örólfs Guðmundssonar staðarhaldara í Reykholti, Nú fljúga hvítu englarnir. UMFR fagnar hundrað ára afmæli sínu á næsta ári og innan félagsins er mikill áhugi og rík hefð fyrir leiksýningum. Í síðasta tölublaði Skessuhorns mátti lesa viðtal við Halldóru Þorvaldsdóttur í Reykholti, sem í 50 ár tók þátt í þessu starfi og í þessari sýningu má líta ýmsa félaga sem í áratugi hafa skemmt sveitungum og fleirum með góðum flutningi. Og framtíðin virðist björt því unga fólkið tók fullan þátt í sýningunni og þeirra verða næstu fimmtíu árin.

Sýningin hófst á Flugfreyjuatriði þar sem gestir voru leiddir inn í “leyndardóma” Logalands. Stutt atriði og skemmtileg byrjun. Í kjölfarið fylgdu fjögur lög Magnúsar Eiríkssonar í flutningi söngvara og hljómsveitar. Þá kom annar einþáttungur um pínlegar aðstæður atvinnuumsækjenda og síðasta atriði fyrir hlé voru önnur fjögur lög úr smiðju Magnúsar Eiríkssonar. Allur flutningur var til fyrirmyndar og sérstaklega var gaman að sjá ungu stúlkurnar Evu Margréti í Víðigerði og Bjarnfríði í Ásgarði syngja fullum hálsi. Hljómsveitina skipuðu reyndir hljóðfæraleikarar utan trommuleikarans Jakobs Sigurðssonar á Varmalæk sem var að taka sín fyrstu slög opinberlega en hann er aðeins 12 ára. Verk Örólfs Guðmundssonar hitti vel í mark og skemmtu gestir kaffihússins sér konunglega. Verkið segir frá sveitapresti sem lifir í sátt við sín sóknarbörn þó lítt fari fyrir formlegum embættisverkum. Manni verður ósjálfrátt hugsað til Kristnihaldsins en lengur nær samanburðurinn ekki. Við fáum að fylgjast með samskiptum prest við sóknarbörn og vinnuhjú og heimsókn sjálfs biskupsins, sem er kominn til að taka út prestssetrið og setja nýja prestinn í embætti. Ekki verður söguþráður rakinn nánar en verkið er skemmtilega skrifað og meinfyndið á köflum. Persónusköpun er oftast ágæt en einhverjum kann að vera ofaukið. Leikararnir hafa auðvitað mismikla reynslu en í það heila tekið skila þeir flestir hlutverkum sínum vel. Nauðsynlegt er þó að geta sérstaklega Ármanns Bjarnasonar á Kjalvararstöðum sem leikur sveitaprestinn af stakri snilld. Hann er möndull sýningarinnar og um hann snúast öll hjól hennar.
Ég óska Reykdælum til hamingju með þessa uppsetningu. Enn á ný hafa þeir glætt borgfirska menningu lífi þannig að eftir verður tekið.

Sveinbjörn Eyjólfsson.