Nemendaleikhús Listaháskóla Íslands frumsýnir nýtt íslenskt verk, Bráðum hata ég þig, eftir Sigtrygg Magnason þann 21. janúar n.k. í Smiðjunni, Sölvhólsgötu. Leikstjóri er Una Þorleifsdóttir. Bráðum hata ég þig er annað verkefni vetrarins en fyrsta sýning Nemendaleikhússins, Eftirlitsmaðurinn eftir Gogol, var sýnd fyrir fullu húsi í haust en uppselt var á allar sýningar.

Á bæ við Kolugljúfur í Víðidal hittast fjórar systur við jarðarför móður sinnar, sem beðið hafði dauðans í hálfan annan áratug. Halla hefur ekki haft samband í þrjú ár, Snæfríður hefur ekki talað við neinn jafn lengi. Steinunn þráir að vera snert og Anna vill komast burt. Halla kemur með gest, sem setur þögult sorglegt jafnvægið í uppnám. Kolugljúfur. Fallegur staður. Já. Fallegur staður.

Nemendaleikhúsið í vetur skipa: Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Jensson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Ævar Þór Benediktsson.

Búninga-og sviðsmyndahöndum er í höndum Axels Hallkels Jóhannessonar, Egill Ingibergsson sér um ljósahönnun og tæknistjórn og Brynja Björnsdóttir aðstoðar við leikmynd og tæknivinnu. Um hljóðmynd sér Högni Egilsson, tónsmíðanemi í tónlistardeild LHÍ.

Miðapantanir fara í gegnum leiklist@lhi.is eða í síma 895 6994 og við minnum fólk á að panta með fyrirvara.

{mos_fb_discuss:2}