Leikurum í ævintýrasöngleiknum Skilaboðaskjóðunni hefur bæst liðsauki en hæfileikapilturinn Árni Beinteinn Árnason mun framvegis leika hlutverk Putta litla á móti öðrum ungum leikara, Hrafni Bogdan Haraldssyni, sem hefur staðið sig frábærlega í sýningum vetrarins.

Söngleikurinn Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson og Jóhann G. Jóhannsson var frumsýndur í leikstjórn Gunnars Helgasonar í byrjun nóvember og hefur slegið í gegn hjá áhorfendum á öllum aldri. Vegna glimrandi aðsóknar var bætt við nokkrum aukasýningum og því hefur verið töluvert álag á leikarana. Það er því fengur að komu Árna Beinteins í hópinn.

Árni Beinteinn hefur mikla sviðsreynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann lék til dæmis í Sitji guðs englar í Þjóðleikhúsinu á liðnum vetri, í söngleiknum Annie og í Ronju ræningjadóttur og Híbýlum vindanna í Borgarleikhúsinu. Um þessar mundir tekur hann einnig þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á sögunni um Gosa og í jólaleikriti Sönglistar, María, asninn og gjaldkerarnir, sem einnig er sýnt þar. Nýlega var frumsýnd fjölskyldumyndin Duggholufólkið en þar fer Árni Beinteinn með hlutverk draugsins. Hann leikur einnig í kvikmyndinni Stóra planið sem frumsýnd verður á nýju ári.

Þessi ungi leikari er líka mikill kvikmyndaáhugamaður og gerir sínar eigin stuttmyndir. Hann er reglulegur gestur í þáttunum Laugardagslögin í Ríkissjónvarpinu þar sem hann hefur vakið athygli fyrir skelegg og lífleg viðtöl. Hann hefur ennfremur tekið þátt í ófáum talsetningarverkefnum og leikið í útvarpsleikritum.