Stuttverkahátíð NEATA (II Official NEATA Short Play Festival) verður haldin í Þórshöfn í Færeyjum 7. og 8. október 2016.

Reglur og upplýsingar fyrir umsókn:

– Hátíðin verður haldin í Færeyjum dagana 7. og 8. október 2016
– Hvert aðildarland má koma með mest 3 stuttverk
– Öll verkin verða að vera nýskrifuð
– Hvert verk má að hámarki vera 15 mín. í sýningu
– Halda þarf kröfum varðandi ljós og aðra tækni í lágmarki
– Það verða aðeins gefnar 5 mín. í skiptingar milli þátta
– Hátíðarhaldarar gera þær kröfur til sýninganna að þær séu sjónrænar og auðskildar áhorfendum
– Sækja þarf um þátttöku til Bandalags ísl. leikfélaga fyrir 15. mars 2016.
– Bandalagið skipar valnefnd sem skilar af sér fyrir 30. mars
– 31. mars tilkynnir Bandalagið Færeyingum hvaða verk fara frá Íslandi.
– Um miðjan apríl verður tilkynnt hvort öll aðildarlöndin nota sinn kvóta. Ef ekki þá skiptist hann á milli áhugasamra.

Færeyingar bjóða 10 manna hópi frá Íslandi (fulltrúi Íslands í stjórn NEATA meðtalinn). Innifalin í boðinu er gisting í svefnsal á heimavist Den Færoyska Folkehøjskole í Þórshöfn. Fólk þarf að koma með svefnpoka með sér, dýnur verða á staðnum. Reiknað er með að fólk gisti í 3 nætur, fullt fæði og handklæði eru innifalin í boðinu.

Dagskráin verður þannig að föstudagurinn 7. október verður notaður fyrir æfingar og undirbúning leikhópanna og fundi stjórna NEATA og NAR. Hátíðin sjálf verður svo sett á laugardagsmorguninn 8. okt. og verkin sýnd með stuttu millibili og matarhléum eins lengi og þörf er á. Um kvöldið er svo hátíðarkvöldverður með gleði og glensi fram á nótt.

Form til umsóknar er að finna hér. Til að sækja um hér á vefnum þarftu að vera innskráður. Félög sem ætla að sækja um en hafa ekki áður fengið aðgangsskráningu að vefnum, þurfa að sækja um skráningu á netfanginu lensherra@leiklist.is merkt „NEATA stuttverkahátíð.“