Þjóðleikhúsið frumsýnir Hart í bak eftir Jökul Jakobsson á Stóra sviðinu nk. föstudag, þann 17. október, í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Hart í bak markaði tímamót í íslenskri leiklistarsögu þegar það var frumsýnt árið 1962. Leikritið rataði beint að hjarta Íslendinga. Og nú, 46 árum síðar, á miklu umrótaskeiði í lífi íslensku þjóðarinnar, á þetta leikrit við okkur brýnt erindi.

Jökull Jakobsson er eitt fremsta leikskáld okkar Íslendinga. Hann hefði orðið 75 ára nú í haust, hefði hann lifað. Þjóðleikhúsið minnist höfundarins með uppsetningu á einu áhrifamesta og vinsælasta leikriti hans. Í Hart í bak kynnumst við sögu reykvískrar fjölskyldu sem má muna sinn fífil fegri. Jónatan skipstjóra var eitt sinn trúað fyrir óskafleyi þjóðarinnar, en hann sigldi skipinu í strand. Nú situr hann fyrir utan húskofa fjölskyldunnar, gamall og blindur og ríður net. Dóttir hans, Áróra, sem eitt sinn þótti besti kvenkostur bæjarins, sér fyrir fjölskyldunni með því að spá fyrir fólki og veita karlmönnum næturgreiða fyrir borgun. Innra með Láka syni hennar logar eldur, en hann sér hvergi leið til að láta draumana rætast.

Í sýningunni kynnumst við stórbrotnum persónum í meðförum afburðaleikara. Gunnar Eyjólfsson leikur skipstjórann Jónatan og spákonuna Áróru leikur Elva Ósk Ólafsdóttir. Þórir Sæmundsson leikur Láka og ungu stúlkuna Árdísi leikur Þóra Karítas Árnadóttir. Pálmi Gestsson leikur Finnbjörn skransala en aðrir leikendur eru Esther Talía Casey, Hjalti Rögnvaldsson, Kjartan Guðjónsson, Friðrik Friðriksson og Þórunn Lárusdóttir. Ívar Helgason tekur við hlutverki Friðriks á fyrstu sýningunum.

Sigurjón Jóhannsson hannar leikmynd sýningarinnar og gerir búninga ásamt Margréti Sigurðardóttur. Um tónlist og hljóðmynd sér Jóhann G. Jóhannsson en Jóhann Bjarni Pálmason hannar lýsingu.

{mos_fb_discuss:2}