Sýning Leikfélags Keflavíkur á Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson, hefur verið valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2018 af valnefnd Þjóðleikhússins. Umsögn valnefndar fer hér á eftir:

Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2017-2018

Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og fimmta sinn. Að þessu sinni sóttu alls fjórtán leikfélög um að koma til greina við valið með sextán sýningar. Formaður dómnefndar var Björn Ingi Hilmarsson leikari og leikstjóri, en með honum í dómnefnd sátu þrír leikarar Þjóðleikhússins, þau Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir. Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:

 • Freyvangsleikhúsið: Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson.
 • Halaleikhópurinn: Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backman. Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson.
 • Hugleikur: Hráskinna eftir Ármann Guðmundsson, Ástu Gísladóttur, Sigríði Báru Steinþórsdóttur og Þorgeir Tryggvason. Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson.
 • Leikfélag Hveragerðis: Glanni Glæpur í Latabæ eftir Magnús Scheving. Leikstjóri: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson.
 • Leikfélag Keflavíkur: Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner. Leikstjóri: Gunnar Helgason. 
 • Leikfélag Keflavíkur: Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson. Leikstjóri: Jóel Sæmundsson.
 • Leikfélag Kópavogs: Fróði og allir hinir grislingarnir eftir Ole Lund Kirkegaard. Leikstjóri: Örn Alexandersson.
 • Leikfélag Kópavogs: Snertu mig ekki! – snertu mig! eftir Örn Alexandersson. Leikstjóri: Sigrún Tryggvadóttir. 
 • Leikfélag Mosfellssveitar í samstarfi við Listaskóla Mosfellsbæjar: Allt önnur Ella eftir Ingrid Jónsdóttur og leikhópinn. Leikstjóri: Ingrid Jónsdóttir.
 • Leikfélag Norðfjarðar: Litla hafmeyjan eftir H.C. Andersen/Walt Disney/Bjarneyju Lúðvíksdóttur. Leikstjóri: Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir og Helga Ósk Þórormsdóttir Snædal.
 • Leikfélag Selfoss: Vertu svona kona eftir Margaret Atwood, Guðfinnu Gunnarsdóttur og leikhópinn. Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir.
 • Leikfélag Sólheima: Úlfar ævintýranna eftir Guðmund Lúðvík Þorvaldsson í leikstjórn höfundar.
 • Leikfélag Ölfuss: Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson.
 • Leikfélagið Grímnir: Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backman. Leikstjóri:  Bjarki Hjörleifsson.
 • Leikflokkurinn Hvammstanga: Hérumbil, Húnaþingi eftir John Cariani. Leikstjóri: Sigurður Líndal Þórisson.
 • Stúdentaleikhúsið: Medía eftir leikhóp Stúdentaleikhússins. Leikstjóri: Stefán Benedikt Vilhelmsson.

Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2017-2018 sýningu Leikfélags Keflavíkur á Mystery Boy.

Umsögn dómnefndar um sýninguna: Sýning Leikfélags Keflavíkur á Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson, í leikstjórn Jóels Sæmundssonar, er afar metnaðarfullur, nýr íslenskur söngleikur þar sem fjallað er á óvenjulegan hátt um mikilvæg málefni. Verkið er byggt á reynslu höfundar af því að fara í áfengismeðferð, en útfærslan er afar frumleg og djörf. Fantasíukennd nálgun höfundar við efnið er til þess fallin að gera efnið aðgengilegt og skemmtilegt fyrir nútímaáhorfendur. Um leið er fjallað um sígild viðfangsefni eins og ástina, frelsisþrána, óttann, átök um völd, baráttu góðs og ills, mannleg samskipti og það að upplifa sig á einhvern hátt utangarðs. Leikstjórnin einkennist af alúð og virðingu fyrir viðfangsefninu. Umgjörðin er einföld en notuð á hugvitssamlegan hátt og fallega lýst. Tónlistin er skemmtileg og vel flutt af hljómsveit og söngvurum, sem einnig standa sig vel í leik. Leikfélag Keflavíkur fær sérstakt hrós fyrir að ráðast af miklum metnaði í uppsetningu á nýju verki, með nýrri tónlist, þar sem þátttakendur leggja líf og sál í uppsetninguna.   

Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna Mystery Boy á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 24. maí.