Það var góð stund sem undirritaður átti með fjölskyldunni síðastliðinn laugardag í Borgarfirði. Ferðinni var heitið í félagsheimilið Brún í Bæjarsveit þar sem leikdeild Umf. Íslendings frumsýndi leikritið sívinsæla um hana Línu Langsokk. Verkið sjálft er eftir snillinginn Astrid Lindgren. Það er fyrir löngu orðinn klassíker sem allir, stórir sem smáir, þekkja út í æsar. Sá sem þetta ritar var svo heppinn að hafa með í för þrjár sjö ára hnátur og fékk þær að aflokinni sýningu sem sérstaka álitsgjafa og leikdómara. Þegar ekið var heim eftir sérlega vel heppnaða sýningu var því ekki flókið mál að setja saman í huganum dóm um verkið byggðan á lýsingum stúlknanna. Í fáum orðum sagt skemmtu hinir ungu leikhúsgestir sér konunglega og það gerðu ekki síður hinir fullorðnu sem voru með í för.

 

 

Leikritið um Línu gerist að mestu á Sjónarhóli, heimili rauðhærða ærslabelgsins sem þangað hafði flust eftir að móðir hennar varð að engli á himninum og faðirinn týndist í Suðurhöfum. Þá færist leikurinn um tíma niður að höfn, í kennslustofuna og á heimili þeirra Önnu og Tomma þar sem háttvísin er í fyrirrúmi hjá móður þeirra sem ekki vill vamm sitt vita. Sviðsmynd er sérlega vel gerð og trúverðug þegar skipt er milli staða. Sjálfar skiptingarnar og færsla leikmuna gerast meðan leikið er á fullu og yfirleitt er það Lína sjálf sem sér um að halda áhorfandanum föngnum við söguna á meðan leiksviðið skiptir um ham.
Lína sjálf er leikin af Sigrúnu Rós Helgadóttur frá Miðfossum. Þessi tólf ára stúlka er ótvírætt að vinna stórsigur á leiksviði. Oft er það svo að senuþjófar í áhugaleikhúsum verða til í smærri hlutverkum en í þessu tilfelli er senuþjófurinn Lína sjálf. Sigrúnu Rós tekst að gæða hina mjög svo frjálslegu stúlku, sem Lína vissulega er, afar skemmtilegu og lifandi yfirbragði jafnt í leik og söng. Áhorfandanum kom hún því þannig fyrir sjónir að hún virtist með öllu laus við stress og einhvern veginn tókst að stjórna sýningunni frá upphafi til enda. Leikstjóranum Ása Hlín Svavarsdóttir hefur greinilega tekist að virkja leikhæfileika Sigrúnar Rósar í þaula og yfirfært verkstjórnina í hendur Línu. Þetta tekst svo vel að ekki í eina sekúndu dregur úr athygli áhorfandans, hversu ungur eða gamall hann nú er. Ásu Hlín hefur að mínum dómi tekist einkar vel upp við stjórnun þessarar uppfærslu og á hrós skilið fyrir það.

Í sýningunni taka margir leikarar þátt, flestir ungir en nokkrir fullorðnir. Allir sýndu ágæta leiktakta en fyrst og fremst var sýningin öguð, frjálsleg og skemmtileg. Allir höfðu lært hlutverk sín vel og allir virtust hafa gaman af því sem þeir voru að gera. Slík gleði skilar sér til áhorfandans. Þau Klara og Stefnir Ægir fara mjög vel með hlutverk þeirra Önnu og Tomma sem eru stilltu krakkarnir sem laðast strax að ærslabelnum Línu þegar hún flyst á Sjónarhól.  Þá eiga félagarnir Hafþór Freyr og Heiðar Örn góða takta í hlutverkum hinna treggáfuðu lögregluþjóna; Hængs og Klængs. En það eru allir, stórir sem smáir, að gera sitt vel í þessari uppfærslu Íslendings og hvergi bar skugga á. Sama hvort það var leikur barnungs Sigurjóns Óla á Herra Níels eða frú Prússólíni sem leikin er af Þórunni Harðardóttur, allt var þetta vel úr hendi leyst. Tónlistarflutningur var í höndum tríós undir stjórn Zsuzsönnu Budai. Með henni léku þau Sigurður Jakobsson á bassa og Ulla Pedersen á þverflautu. Þetta var þægileg tónlist sem yfirkeyrði aldrei söng leikaranna.

Ég ætla að nota þetta tækifæri og hvetja fólk til að láta ekki þetta einstaka tækifæri fram hjá sér fara og fara í Brún til að sjá Línu og félaga á Sjónarhóli. Þetta er afbragðs góð skemmtun fyrir fólk á öllum aldri. Bestu hamingjuóskir Íslendingar.

Magnús Magnússon.

lina2.jpg