Sunnudaginn 19. apríl nk. stendur leikfélagið Hugleikur fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Áhugaleikhús og frumsköpun“ á Rósenberg kl. 16.00 í tilefni af 25 ára starfsafmæli félagsins síðar í þessum mánuði. Hugleikur var stofnaður árið 1984 og hefur um árabil verið einn virkasti áhugaleikhópur landsins. Hann hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin eru öll saman af félagsmönnum. „Áhugaleikhús og frumsköpun“
málþing haldið sunnudaginn 19. apríl 2009 kl. 16.00 á Rósenberg í tilefni af 25 ára afmæli Hugleiks

1) Framsögur og almennar umræður kl. 16.00-17.30
Sigrún Valbergsdóttir, leikstjóri: „Eins og það gerist best“.
Viðar Eggertsson, leikstjóri og leikhússtjóri Útvarpsleikhússins: „Það var nú svo og svo var nú það“.
Þorvaldur Þorsteinsson, myndlistarmaður, rithöfundur og leikskáld: „Víða er þvottur brotinn“.

Fundarstjóri: Silja Björk Huldudóttir, formaður Hugleiks

2) Frumsýning á nýjum einþáttungum eftir Hugleikshöfunda í flutningi félagsmanna kl. 17.30-18.30
Frumsýndir verða fjórir nýir einþáttungar. Auk þess verður flutt brot úr væntanlegri frumsýningu Hugleiks á „Ó þú aftur“ eftir Ingibjörgu Hjartardóttur, Sigrúnu Óskarsdóttur og Unni Guttormsdóttir í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar sem frumsýnd verður á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins föstudaginn 15. maí nk.

3) Matur kl. 18.30-20.00
Þátttakendum býðst dýrindis plokkfiskur að hætti hússins, kaffi og kökusneið á aðeins 2.000 krónur.

4) Tónlist kl. 20.00-22.00
Hljómsveitirnar Litla-Hraun og Ljótu hálfvitarnir skemmta þátttakendum með tónum sínum fram eftir kvöldi.

Allir eru hjartanlega velkomnir á Rósenberg og er aðgangur ókeypis. Þátttakendur eru engu að síður beðnir um að skrá þátttöku sína og taka fram hvort þeir hyggjast borða á staðnum með því að senda póst fyrir 15. apríl nk. á netfangið: hugleikur@hugleikur.is

{mos_fb_discuss:3}