Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna
Ef væri ég gullfiskur
Höfundur: Árni Ibsen
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson

Fjölskyldur geta verið flóknar, en þær eru sjaldnast jafn flóknar og fjölskylda Péturs, gullfiskabúðareiganda. Pétur þessi er raunar ekki allur þar sem hann er séður. Hann hefur komist yfir mikið fé og hyggst stinga af með það. Það reynist honum þó þrautin þyngri að komast út úr húsi með allt sitt fé. Sonur hans Binni kemur óvænt í heimsókn um miðjan nótt með dömuna Öldu upp á arminn. Hinir synir hans, Berti og Dóri, bætast svo í hópinn ásamt tengdadætrum. Þegar líður á verkið mætti segja að hver þvælist fyrir öðrum eins vera bera í farsa sem þessum. Á tímabili efaðist undirrituð um að hægt yrði að vinda ofan af vitleysunni en allt leysist, kannski ekki farsællega, en það leysist að lokum. Og másek hjálpar gullfiskaminni fjölskyldu Péturs að gleyma allri misklíð þannig að allt verði fallið í ljúfa löð næst þegar þau hittast. Hvur veit!

Svona er nokkurn veginn er innihald sýningarinnar Ef væri ég gullfiskur eftir Árna Ibsen sem sýnd er um þessar mundir í uppsetningu leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu.

Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna státar af sterkum hópi leikara og eiga margir þeirra stórleik í þessari uppsetningu. Böðvar Þór Unnarsson leikur Binna, einn af sonum Péturs. Binni er á sviðinu nær allan tímann og nær Böðvar að skila vel þessum vandræðalega karakter. Hildur María Hilmarsdóttir leikur daðurdrósina Öldu og skilar sínu mjög vel. Þó allt snúist um Pétur og peningana hans er Pétur ekki eins mikið á sviðinu og ætla mætti. Í hlutverki hans er Sigurjón Sæland og leikur hann af miklu öryggi. Það sama má segja um Guðbjörgu vinkonu hans sem leikin er af Heklu Hrönn Pálsdóttur. Hressandi andblær fylgir innkomu Kristínar, konu Binna, sem leikin er af Aðalheiði Helgadóttur. Aðalheiður er frábær leikkona og skilar mjög vel hinu kómíska hlutverki Kristínar. Dóri, leikinn af Sindra Mjölni Magnússyni, er sömuleiðis frábær í sínu hlutverki. Dóri er óðamála ungur maður, dálítið ýkt týpa sem Sindri Mjölnir túlkar mjög vel. Of langt mál yrði að telja upp alla aðra leikara, en eins og áður sagði er leikhópurinn sterkur og skilar sínu mjög vel.

Verkið Ef væri ég gullfiskur var frumsýnt í Borgarleikhúsinu árið 1996. Í uppsetningunni í Aratungu er mikið lagt í leikmyndina. Nær allt verkið gerist í stofu í húsi sem er í anda tíunda áratugarins. Leikmunir og búningar minna einnig á þann áratug. Gamaldags snúrusími og símsvari leika mjög mikilvægt og kómískt hlutverk í sýningunni. Það hefði því verið skemmtilegt ef leikararnir hefðu verið með farsíma frá þessum tíma en ekki snjallsíma eins og notaðir eru í dag. Áhorfendur hefðu þá horfið enn betur aftur til tíunda áratugarins.

Að þessu sögðu má segja að allt gangi upp í sýningunni. Ólafur Jens Sigurðsson nær að laða fram mikla leikgleði hjá hópnum eins og hann gerði líka í sýningunni sem hann setti upp með hópnum korteri í kóvíd árið 2020. Ljós eru vel notuð og sú litla tónlist sem hljómar í upphafi sýningar gaf fyrirheit um ljúfa stund, sem segja má að hafi leysts upp eftir því sem leið á sýninguna.

Nokkrar sýningar eru eftir af þessu bráðskemmtilega verki og hvet ég alla til að fara að sjá hana. Hún er góð hvíld frá amstri hvunndagsins.

Elín Gunnlaugsdóttir