Bandalag íslenskra leikfélaga á heimsins stærsta safn leikrita á íslenskri tungu. Þar er að finna bróðurpart þeirra leikrita sem leikin hafa verið hérlendis frá upphafi leiklistar. Ármanni Guðmundssyni datt í hug að áhugavert væri að skoða hvaða leikrit og hvaða höfundar eru vinsælust hjá íslenskum leikritakaupendum og tók saman lista yfir metsöluleikrit og metsöluhöfunda ársins 2002. Þrátt fyrir að hann og hans verk væru ekki þar á meðal ákvað hann að birta niðurstöðurnar og hér í fyrri hluta þessarar úttekar er uppljóstrað hver eru vinælustu leikritin en síðar verða höfundum gerð ítarlegri skil. Metsölulisti Bandalagsins, fyrri hluti – mest seldu leikritin 2002

Það er viðurkennd staðreynd að það borgar sig ekki (þ.e. fjárhagslega) að gefa út leikrit á Íslandi og þess vegna eru leikrit almennt ekki gefin út á prenti. En örvæntu eigi leikhúsáhugamaður, til eru ráð, því eins og flestir þeir sem heimsækja Leiklistarvefinn vita, á Bandalag íslenskra leikfélaga heimsins stærsta safn leikrita á íslenskri tungu. Þar er að finna bróðurpart þeirra leikrita sem leikin hafa verið hérlendis frá upphafi leiklistar og hingað leita flestir sem vantar af einhverjum ástæðum leikrit. Bandalagið selur hverjum sem kaupa vill handrit og það er því áhugavert að skoða hvaða leikrit og hvaða höfundar eru vinsælust hjá íslenskum leikritakaupendum. Undirritaður yfirritari skrifstofu Bandalagsins fór í saumana á þessum málum og tók saman lista yfir metsöluleikrit og metsöluhöfunda ársins 2002. Hér í fyrri hluta þessarar úttekar er gert grein fyrir vinælustu leikritunum en síðar verða höfundum gerð skil.

Rannsóknarvinna fyrir úttektina var hæfilega vísindaleg, stuðst var við sölunótur þar sem næstum alltaf er tilgreint hvaða leikrit voru keypt. Þau örfáu tilfelli þar sem gleymst hefur að geta nafns leikrits ættu ekki að skekkja niðurstöðurnar að neinu marki. Tekið skal fram að þegar keypt voru fleiri en eitt eintak af verki í einu (eins og t.d. þegar leikfélög láta skrifstofuna ljósrita fyrir sig sýningarhandrit) er það aðeins talið sem eitt „hitt“.

Í leikritasafninu voru þegar þetta er ritað 2341 titlar, allt frá einni blaðsíðu og upp úr. Af þessum 2341 voru seld eintök af 257 titlum sem er eins og glöggir lesendur sjá á augabragði um 12%. Af þessum 257 titlum voru 185 seldir í einu eintaki og 42 í tveimur. Tekið skal fram að engin bein tengsl (eða í það minnsta mjög lítil) eru á milli seldra handrita og fjölda uppsetninga á verkinu, oft eru leikfélög að skoða mörg leikrit, skólar setja gjarnan upp hluta verka og einnig er talsvert selt til einstaklinga. En kíkjum þá á listann yfir vinsælustu verkin.

1-2. sæti (8 eintök)
Gauragangur – Ólafur Haukur Símonarson
Söngleikurinn Grettir – Ólafur Haukur Símonarson, Þórarinn Eldjárn og Egill Ólafsson

3-4. sæti (7 eintök)
Grænjaxlar – Pétur Gunnarsson og Spilverk þjóðanna
Kardimommubærinn – Torbjörn Egner

5. sæti (6 eintök)
Ávaxtakarfan – Kristlaug María Sigurðardóttir

6-8. sæti (5 eintök)
Delerium Búbonis – Jónas og Jón Múli Árnasynir
Sex í sveit – Marc Camoletti
Söngvaseiður – Rodgers og Hammerstein

9-17. sæti (4 eintök)
Allra meina bót – Jónas og Jón Múli Árnasynir
Á svið – Rick Abbot
Grease – Jim Jacobs og Warren Casey
Saumastofan – Kjartan Ragnarsson
Skilaboðaskjóðan – Þorvaldur Þorsteinsson
Stræti – Jim Cartwright
West side story – Arthur Laurents, Stephen Sondheim og Leonard Bernstein
Þar sem Djölfaeyjan rís – Einar Kárason, leikgerð Kjartan Ragnarsson
Þrek og tár – Ólafur Haukur Símonarson

18-30. sæti (3 eintök)
Allt í plati – Þröstur Guðbjartsson
Bugsy Malone – Alan Parker
Emil í Kattholti – Astrid Lindgren
Erum við á réttu róli? – Leikfélag Keflavíkur
Hárið – Gerome Ragni, James Rado og Michael Weller
Himnaríki – Árni Ibsen
Hreinn umfram allt – Oscar Wilde
Kona – Dario Fo og Franca Rame
Maríusögur – Þorvaldur Þorsteinsson
Meiri gauragangur – Ólafur Haukur Símonarson
Monty Python sketsar – Monty Python
Saga úr dýragarðinum – Edward Albee
Superstar – Andrew Lloyd Webber og Tim Rice

Ótvíræður sigurverari, með verk í tveimur efstu sætunum og tvö neðar á lista, er Ólafur Haukur Símonarson og ætti það ekki að koma neinum verulega á óvart. Aðrir sem eiga tvö verk á lista eru Kjartan Ragnarsson, Þorvaldur Þorsteinsson og bræðurnir Jónas og Jón Múli Árnasynir. Reyndar laumar Egill Ólafsson sér þar líka inn sem höfundur tónlistar í tveimur af vinsælustu verkunum en það er athyglivert að þeir sem eiga fleiri en eitt verk á listanum eru allt íslenskir höfundar.

Eins og sjá má þurfa ekki ýkja mörg eintök að seljast til þessa að fleyta verki inn á Metsölulistann og þau verk sem henta eldri bekkjum grunnskóla eiga þar greinilega meiri möguleika á góðum árangri en önnur svo og söngleikir og „létt og skemmtileg“ verk. Af þeim verkum sem mesta undrun vekur að sjá ekki þarna er Dýrin í Hálsaskógi tvímælalaust efst á blaði en hugsanleg skýring á því er að markaðurinn fyrir það hafi hreinlega verið mettaður því það hefði örugglega verið ofarlega á lista fyrir 2001 ef hann hefði verið gerður.

Fylgist með í næstu viku þegar úttekt verður gerð á vinælustu leikskáldum landsins. Tekst einhverjum að skáka Ólafi Hauki eða er hann hinn ókrýndi metsöluhöfundur íslenskrar leikritunar?

Ármann Guðmundsson