Árið 2004 settu Hugleikur og Leikfélag Kópavogs upp verkið Memento Mori. Verkið var unnið í samstarfi þátttakenda úr félögunum tveimur og leikstjórans Ágústu Skúladóttur, en handrit skrifaði Hrefna Friðriksdóttir. Sýningin fór síðan á fjölþjóðlega leiklistarhátíð á Akureyri árið 2005 og var þar valin besta sýning hátíðarinnar með meiru. Síðastliðið sumar var síðan farið með sýninguna á leiklistarhátíð NEATA, (Norður-Evrópska áhugaleikhússambandssins) í Færeyjum og hlaut hún þar mikið lof áhorfenda. Og nú er komið að öllum þjóðum heimsins.

Alþjóðlega áhugaleikhúshreyfingin, IATA/AITA, heldur leiklistarhátíðir annað hvert ár. Önnur hver hátíð er haldin í Mónakó, en hinar víðs vegar um heiminn. Sumarið 2007 verður slík hátíð haldin í Suður-Kóreu. Þangað hefur Hugleik og Leikfélagi Kópavogs nú verið boðið með sýninguna Memento Mori, sem einn af fulltrúum NEATA-þjóðanna.
mementomori.jpgÍslensk leikfélög hafa verið heldur ódugleg við að sækja þessar hátíðir alþjóðasamtakanna. Þegar Hugleikur fór á slíka hátíð í Mónakó árið 2005 með sýninguna Undir Hamrinum, voru 20 ár frá því að íslensk sýning hafði síðast farið með sýningu á IATA-hátíð. Þá var það Leikfélag Hafnarfjarðar sem lagði lönd undir hjól, árið 1985.

Áhugi íslenskra leikfélaga á þátttöku í fjölþjóðlegum leiklistarhátíðum virðist því vera eitthvað að glæðast, þó vissulega væri gaman að sjá fleiri félög sækjast eftir því að fara á slíkar hátíðir. Þátttaka í fjölþjóðlegu samstarfi hefur verið þeim félögum sem tekið hafa þátt í slíku mikill innblástur og vítamínsprauta í starfið heima fyrir. Í því samhengi má nefna að að hátíð NEATA, sem haldin er annað hvert ár og var haldin síðasta sumar í Færeyjum, verður árið 2010 haldin á Akureyri. Þar verða sýningar frá öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Þar verður tvímælalaust á ferð leikhúsviðburður sem leikhúsáhugafólk ætti ekki að láta framhjá sér fara. Sumarið 2008 verður NEATA-hátíð haldin í Lettlandi og er öllum leikfélögum innan Bandalags íslenskra leikfélaga frjálst að sækja um þátttöku á henni.

Nánari upplýsingar fást á skrifstofu Bandalags íslenskra leikfélaga.