Leikhópur Ungmennafélags Reykdæla frumsýndi leikritið „Með vífið í lúkunum“ eftir breska leikskáldið Ray Cooney í Logalandi í Reykholtsdal í 4 mars sl. Áhorfendur létu í ljós ánægju sína með grín og glens og mátti heyra hlátrasköllin út um allan sal þegar mest gekk á uppi á sviðinu. Þar túlkuðu leikendur litríkan farsa sem snýst um að greiða úr lygaflækjum aðalsöguhetjunnar John Smith, sem starfar sem leigubílstjóri í London. Hann lifir tvöföldu lífi og það getur haft sínar óþægilegu afleiðingar. Guðrún Jónsdóttir skrifaði eftirfarandi fyrir Skessuhorn.

Leikendur eru átta talsins og leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson sem oft áður hefur leikstýrt hjá borgfirskum áhugaleikfélögum. Það er Jón Pétursson sem leikur hlutverk hins útsmogna en óheppna John Smith. Aðrir leikarar eru Katrín Eiðsdóttir, Þórhildur Kristinsdóttir, Narfi Jónsson, Hafsteinn Þórisson, Ármann Bjarnason, Þór Þorsteinsson og Kristrún Snorradóttir. Ungmennafélag Reykdæla hefur verið mjög virkt í leikstarfsemi sinni og því er þar mikil reynsla saman komin. Allir leikendur stóðu sig með mikilli prýði og Þór Þorsteinsson var senuþjófur kvöldsins í hlutverki nágrannans Bobby.

Búningar voru í umsjón Steinunnar Garðarsdóttur og Þórdísar Sigurbjörnsdóttur og undirstrikuðu þeir hlutverkin vel. Sviðsmyndin er gerð af Þorvaldi Jónssyni og smíðuð þannig að hægt er að fylgja söguþræðinum á tveimur stöðum samtímis enda full þörf á í eins flóknum söguþræði og hér um ræðir.

Næstu sýningar í Logalandi verða þriðjudaginn 8. mars, fimmtudaginn 10. mars, föstudaginn 11. mars og laugardaginn 12. mars. Allar sýningar hefjast klukkan 20:30. Miðapantanir eru í síma 662-5189 og 691-1182.

{mos_fb_discuss:2}