Á Listahátíð í Reykjavík  í vor býðst einstakt tækifæri til að sjá rómuðustu ástarsögu allra tíma, Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í stórbrotinni uppfærslu litháíska leikstjórans Oskaras Koršunovas á Stóra sviði Borgarleikhússins. Þessi margverðlaunaða uppsetning hefur ferðast um allan heim síðustu tíu ár og kemur til Íslands í samvinnu Borgarleikhússins og Listahátíðar í Reykjavík. Um sannkallaðan hvalreka er ræða fyrir leikhúsáhugafólk því túlkun Koršunovas er einstök á þessu verki.

Oskaras Koršunovas er einn fremsti leikstjóri Evrópu í dag og stýrir hann Borgarleikhúsi Vilnius. Koršunovas hefur sett upp leikrit víðsvegar um heiminn en undanfarin ár hefur hann reynt að einbeitt sér að OKT Borgarleikhúsinu í Vilnius sem hann stýrir. Hann hefur þó tekið frá tíma til að leikstýra jólaleikriti Borgarleikhússins nú í ár. Hefur hann valið annað Shakespeare verk sem hann vill takast á við með íslenska hópnum, Ofviðrið. Síðasta leikstjórnar verkefni Koršunovas var nú í mars í Folkoperan í Stokkhómi. Þar vann hann óperu Kurt Weill, Der Silversee eða Silfurhafið sem var fyrst frumsýnd árið 1933. Gagnrýnendur í Svíþjóð hafa lofað uppsetninguna einróma og gekk gagnrýnandi Dagens Nyheter svo langt að kalla uppsetninguna kraftaverk.

Koršunovas lætur Rómeó og Júlíu gerast meðal bakara og berjast ættirnar tvær ekki bara um völdin í Verónaborg heldur líka um það hver bakar besta brauðið og sætustu kökurnar. Mikill kraftur, húmor og magnað sjónarspil einkenna sýninguna.

Forsala á þennan einstaka viðburð er hafin hjá miðasölu Borgarleikhússins, á http://www.listahatid.is/ og www.miði.is. 
Verkið er flutt á litháísku og textað á íslensku.
Sýnt: 14. og 15. maí á Stóra sviði Borgarleikhússins