Mánudaginn 4. mars nk. stendur Leikfélag Reykjavíkur fyrir sínu árlega málþingi sem að þessu sinni fjallar um samtímalistamanninn Kjartan Ragnarsson, leikstjóra, leikskáld, leikara og frumkvöðul. Dagskráin er fjölbreytt, stuttir fyrirlestrar, pallborðsumræður, flutt brot úr leikverkum, tónlistaratriði og upptökur frá uppsetningum Kjartans. Auk listamanna Borgarleikhússins munu KK og  hljómsveitin 4 á palli taka þátt í flutningnum.  Kynntar verða heimildarmyndir um tvo leikara Leikfélagsins. Dagskráin hefst kl. 17.30 og er öllum opin.

Fjórir fyrirlesarar munu fjalla um feril Kjartans: Hanna María Karlsdóttir, leikkona, Magnús Þór Þorbergsson, lektor, Sveinn Einarsson, fv. leikhússtjóri og Þórunn Sigurðardóttir, leikstjóri. Að loknum erindum verða pallborðsumræður, sem Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir stýrir. Sýnd verða fjölbreytt myndbrot úr höfundarverkum og leikstjórnarverkum, og jafnframt myndbrot úr viðtölum við Kjartan. Sýnt verður m.a. brot úr uppsetningu á Djöflaeyjunni frá árinu 1986. Leikararnir Hanna María Karlsdóttir, Halldór Gylfason og Jóhann Sigurðarson munu flytja kafla úr leikritinu Jóa.

Tónlist sem tengist verkunum verður flutt af KK, Jóhanni Sigurðarsyni og hljómsveitinni 4 á palli, en hana skipa Edda Þórarinsdóttir, Kristján Hrannar Pálsson, Páll Einarsson og Magnús Pálsson.

Leikfélag Reykjavíkur hefur látið vinna sex heimildarmyndir um eldri listamenn félagsins og hafa fjórar þeirra þegar verið kynntar á félagsfundum.  Nú er röðin komin að tveimur síðustu og verða á málþinginu kynntar heimildarmyndir um Margréti Ólafsdóttur og Karl Guðmundsson.  
Myndir þessar verða seinna aðgengilegar á heimasíðu Borgarleikhússins.

Málþingið er öllum opið og aðgangur er ókeypis.

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins. Leikfélagið var stofnað 11. janúar árið 1897. Félagið hefur alla tíð verið metnaðarfullt og staðið fyrir myndarlegri leiklistarstarfsemi allt til þessa dags. LR  barðist fyrir byggingu Borgarleikhússins sem var opnað 1989 og rekur leikhúsið samkvæmt sérstökum samningi við Reykjavíkurborg. Félagið er opið öllu áhugafólki um góða leiklist.