Leikfélagið Maddid Theatre Company, sem starfar aðallega í London, sýnir sviðslistasýninguna Maddid í Hafnarfjarðarleikhúsinu Strandgötu 50 næstkomandi föstudags- og laugardagskvöld kl. 20:00. Með hlutverk Maddidar fer leikkonan Vala Ómarsdóttir. Vala stofnaði leikfélagið ásamt leikhúsframleiðandanum Mari Rettedal fyrir rúmu ári en síðan þá hafa fleiri listamenn bæst í hópinn. Maddid Theatre Company er fjölþjóðlegur hópur með rætur á Íslandi.

Að sýningunum standa listamenn frá fimm löndum, Íslandi, Noregi, Bretlandi, Spáni og Brasilíu. Hefur verkið verið sýnt í leikhúsinu The Space í London á seinasta ári og á Kuiperfest listahátíðinni í Aragon á Spáni í júní sl. Maddid var sett upp á sviðslistahátíðinni artFart í nýliðnum mánuði og er leikhópurinn nýkominn úr vel heppnaðri sýningarferð til Vestmannaeyja.

Verkið er einleikur um stúlkuna Maddid, tilfinningaríkan og flókinn karakter sem reynir að fóta sig í lífinu. Persónan verður til með „devised'“ vinnuaðferð þar sem samvinna þeirra sem að sýningunni standa gegnir lykilhlutverki. Maddid er sjálf meðvituð um að hún er samansett verk sem gerir hana brotakennda, en ekki karakter í leikriti. Verkið er því skoðun á því hvernig „devised'“ vinnuaðferð hefur áhrif á leikara og á sjálfan karakterinn í sýningunni. Hún á erfitt með að tjá sig þar sem ekki er búið að skrifa fyrir hana öll orð og þegar hana skortir orðin til að koma hugmyndum sínum á framfæri tekur líkaminn stjórnina, hvort sem henni líkar betur eða verr, oft með spaugilegum afleiðingum. Miðasala er í síma 555 2222.

Maddid: Vala Ómarsdóttir
Höfundar: Mari Rettedal og Vala Ómarsdóttir
Framleiðsla: Mari Rettedal og Jordi Serra
Sviðsmynd og listræn hönnun: Jordi Serra
Texti: Isla Gray
Gestaleikstjórn: Ástþór Ágústsson og Gael Le Cornec
Búningar og Förðun: Sian-Estelle Petty
Tónlist: Steindór Ingi Snorrason

{mos_fb_discuss:2}