Tvær sýningar, sem hafa vakið mikla athygli og fengið frábærar viðtökur, verða sýndar í Þjóðleikhúsinu í síðasta sinn nú um helgina. Um er að ræða Macbeth eftir Shakespeare í leikstjórn Benedicts Andrews og Jónsmessunótt eftir Hávar Sigurjónsson í leikstjórn Hörpu Arnardóttur. Síðustu sýningar á Macbeth eru 1. og 2. febrúar en síðasta sýning á Jónsmessu nótt þann 3. febrúar.

Sýning Benedicts Andrews á Macbeth hefur þótt sæta miklum tíðindum, enda er Andrews einn af fremstu leikstjórum sinnar kynslóðar og hann vinnur hér með íslensku listafólki í fremstu röð. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna á alþjóðlegum vettvangi, og hlaut nú síðast Critics Circle verðlaunin fyrir leikstjórn sína á Þremur systrum í Young Vic í London. Þess er skemmst að minnast að sýning Andrews á Lé konungi í Þjóðleikhúsinu fyrir tveimur árum vann til sex Grímuverðlauna, meðal annars sem besta sýning ársins. Þeir sem ekki vilja missa af þessum leiklistarviðburði eru hvattir til að tryggja sér miða hið fyrsta. Ekki verður hægt að bæta við aukasýningum, þar sem ekki er unnt að geyma hina mögnuðu leikmynd sýningarinnar ásamt nýjum leikmyndum á Stóra sviðinu, vegna skorts á rými.

Það er alltaf afar ánægjulegt þegar nýju íslensku leikriti er jafn vel tekið og Jónsmessunótt, en höfundur, leikstjóri, leikmyndarhöfundur og leikarar sýningarinnar hafa hlotið einróma lof fyrir hana. Jónsmessunótt er meinfyndið nýtt íslenskt verk, svört kómedía beint úr íslenskum samtíma. Verkið fjallar um íslenska fjölskyldu sem kemur saman í sumarbústaðnum til að fagna hálfrar aldar brúðkaupsafmæli foreldranna. Í uppsiglingu eru harðvítug átök um völd og eignir en ekki síst um yfirráð yfir minningunum. Áhugafólk um leiklist og íslenska leikritun er hvatt til þess að láta þessa skemmtilegu sýningu ekki fram hjá sér fara.