Við lok hverrar vertíðar er vert að kikka um öxl og skila inn aflatölum. Vissulega er leikhúsið sjóvmennska og nú í lok leikárs er komið að löndun leikhússins vestfirska.  Ekki síst vegna þess að leiklistin er list augnabliksins, er hér og nú, svo tekur eitthvað annað listaverk við. Minningin gleymist þó ekki en stundin verður ekki endurtekin. Þannig er leikhúsið í sinni tærustu mynd hér og nú með öllum þeim kostum og kannski göllum. Enda ekki að ósekju sem margir segja að töfrar og galdrar gjörist í leikhúsinu í hvert sinn sem leikið er.

Leikhúsið vestfirska stendur á gömlum og traustum grunni. Um leið og þorpin byrjuðu að myndast uppgötvuðu menn skjótt að lífið væri ekki bara saltfiskur. Til að punta uppá hverdaginn var mikilvægt að hafa sér eitthvað til dundurs. Þar varð listin fljótlega fyrir valinu og áður en langt um leið voru settar á svið heilu leiksýningarnar. Þar sem heimamenn voru í öllum hlutverkum bæði á sviðinu sem og baksviðis. Fljótlega spruttu upp sérstök leikfélög sem enn starfa svo gott sem í hverju þorpi Vestfjarða. Það er meira að segja rekið eitt atvinnuleikhús, þótt afar smátt sé, á hinum afskekta kjálka landsins. Vissulega er starfsemi félaganna misjafnlega öflug. Sumir setja upp leikrit á hverju ári meðan aðrir bregða á leik annað hvert ár eða láta jafnvel fleiri ár líða á milli uppsetninga.

Vestfirska leikárið var sannarlega fjölbreytt, freistandi og frumlegt. Leikurinn hófst með því að lokka okkur og seiða með sýningunni Eitthvað sem lokkar og seiðar hjá Óperu Vestfjarða. Leikárinu lauk svo með daðri Kómedíuleikhússins í Daðrað við Sjeikspír. Alls voru átta verk sett á svið á hinu vestfirska leikári. Því er vert að hefjast handa og skila inn aflaleikhústölum hins vestfirska leikárs 2015 – 2016. Við lifum jú á þvílíkum stuð tímum að stundum man maður bara ekki hverju maður er búinn að gleyma.

 

Frá Ísafirði til Hólmavíkur

Fyrsta uppfærsla hinnar nýstofnuðu Óperu Vestfjarða, Eitthvað sem lokkar og seiðir, var frumsýnd 17. september í Hömrum á Ísafirði. Þessi lauflétta óperetta fjallaði um fyrstu óperettudrottningu þjóðarinnar hinnar ísfirsku Sigrúnu Magnúsdóttur. Var það vel við hæfi að Ópera Vestfjarða hefji söng- og leik með því að minnast eins af mestu listamönnum Vestfjarða. En leikurinn var jafnframt frumflutningur sem gerir minninguna enn skærari. Aðsókn var góð og fullt á öllum þremur sýningunum. Október mánuður var tími tveggja frumsýninga á Vestfjörðum. Leikfélag Hólmavíkur í samstarfi við Sauðfjársetrið setti á svið Draugasögu eftir Jón Jónsson og var það einnig frumflutningur. Það er nú ekki lítið að fyrstu tveir mánuðir hins vestfirska leikárs skarti tveimur nýjum íslenskum verkum. Ætli þetta sé víðar á landinu?

Eitt duglegast áhugaleikfélag Vestfjarða er án efa Litli leikklúbburinn á Ísafirði sem fagnaði hálfrar aldar afmæli sínu á liðnu ári. Margt var gert af því tilefni og í október bauð félagið uppá svonefnda Kvöldstund með LL. Þar var slegið á létta strengi og flutt lög úr leikverkum er félagið hafði sett á svið í gegnum áratugina fimm.

Eftir kraftmikla byrjun á leikári tóku önnur verkefni við hjá leikhúslistamönnum Vestfjarða. Jólin. Engin fór þó í jólaköttinn því eftir áramót voru sett á svið hvorki fleiri né færri en fimm verk þar á meðal enn eitt nýtt íslenskt stykki. Þetta fer nú að verða sérstakt rannsóknarefni listarannsakara þjóðarinnar öll þessi nýsköpun í íslenskri leikritun. Mar‘ spyr bara einsog söngvaskáldið: Er það hafið eða fjöllin?

 

Framtíðin og Sjeikspír

Það var vel við hæfi að framtíðin tæki senuna á nýju ári vestursins. Eitt flottasta og án efa ferskasta leikfélag Vestfjarða er LMÍ, Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði. Mikið væri nú gaman ef einhver tæki að sér að gera sögu þess félags skil áður en alltof langt um líður. Ár eftir ár setur félagið upp hvert stórvirkið á fætur öðru. Verkefnavalið er ávallt sérlega metnaðarfullt og stundum óvænt. Félagið stóð undir öllum væntingum og meira til með sýningu á Litlu hryllingsbúðinni í leikstjórn Ingridar Jónsdóttur. Sýnt var fyrir smekkfullu Edinborgarhúsi 27. febrúar og í kjölfarið fylgdu margar, margar sýningar. Leikhundurinn og ritari þessa pistils klökknar í hvert sinn sem félagið stígur á stokk. Fyllist stolti og trú á framtíðina.

Einsog var getið hér í upphafi þá frumsýndi hið duglega Leikfélag Hólmavíkur nýtt íslenskt verk í upphafi hins vestfirska leikárs. Þau létu ekki þar við sitja heldur frumsýndu hið vinsæla barnaleikrit Ballið á Bessastöðum 18. mars. Sýnt var í félagsheimili staðarins en einnig var farið í leikferð í Búðardal. Hinn vestfirski Bragi Valdimar Skúlason samdi tónlistina í verkinu en höfundur Bessastaðaballsins er Gerður Kristný. Leikstjórn annaðist Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir.

Grípum nú til klisju og segjum: Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar. Leikdeild Höfrungs á Þingeyri hefur síðustu ár vakið mikla athylgi fyrir bráðfjörugar leiksýningar fyrir alla fjölskylduna. Á hverju ári er sagt, jæja þetta verður nú ekki toppað. Þó toppuðu þau sjálfa sig enn eitt árið þegar þau frumsýndu Kardemommubæinn 19. mars í félagsheimilinu. Leikurinn sló öll fyrri met leikdeildarinnar og gleðin var sannarlega við völd í þessum vinsæla bæ Thorbjörns Egner sem eldist betur en nokkur rauðleitur vökvi. Mikill hugur er í leikdeildinni sem hefur þegar ákveðið næsta verkefni en ritari fékk engan vegin að fá það upplýst til að geta ,,skúbbað“ hér að hætti blaðamanna. Svo vér verðum bara að doka og getum bara strax farið að hlakka til næsta leikárs í miðstöð leiklistar á Vestfjörðum. Einsog gárungarnir eru farnir að nefna þorpið.

Apríl færði okkur einnig tvær frumsýningar fyrir vestan. Ekki nóg með það heldur voru þær báðar frumsýndar sama daginn. Litli leikklúbburinn hóf hinn frábæra dag 23. apríl með því að bjóða öllum í leikhús á Rauðhettu. Já, ókeypis og það var ekki bara frítt á frumsýninguna heldur og allar 7 sýningarnar. Sannarlega rausnarlega boðið hjá félaginu og ástæða til að ekki bara þakka fyrir heldur og hrópa ferfallt húrra fyrir LL. Um kveldið  þennan sama leikhúsdaga í vestrinu, 23. apríl, frumsýndi Kómedíuleikhúsið í félagsheimilinu í Bolungarvík nýtt íslenskt leikverk, já enn eitt þetta endar í heimsmeti ég get svarið það. Þessi nýji vestíslenski leikur heitir Daðrað við Sjeikspír. Einsog nafnið gefur til kynna er hér til umfjöllunnar líklega vinsælasta leikskáld allra tíma William Shakespeare. Það var ærið tilefni til því þennan sama daga voru fjórar aldir síðan skáldið hélt á önnur svið. Má vel nefna það hér að Kómedíuleikhúsið var eitt atvinnuleikhúsa landsins sem heiðraði skáldið mikla hér á landi þennan dag. Farið var í leikferð um Vestfirði með leikinn við hinar ágætustu viðtökur.

 

Ef við mætum þá verður allt ok

Ef miðað er við íbúafjölda Vestfjarða má teljast bara dúndur gott að þar hafi verið sett á svið átta verk á einu og sama leikárinu. Hið vestfirska leikhús kemur bara vel undan vetri og nú tekur við hið frábæra vestfirska sumar. Leikhúsfólk okkar safnar kröftum fyrir komandi leikár 2016 – 2017. Eigi er ólíklegt að margir láti hugann reika um komandi leikhúsævintýri enda fátt betra að láta sig dreyma innanum um öll þessi fjöll og hafið, maður minn sæll og kátur.

Sumarið verður þó síður en svo leikhús laust á Vestfjörðum. Kómedíuleikhúsið tekur sér til að mynda ekkert sumarfrí enda nægur tími til þess með lækkandi sól, þó undarlega hljómi. Kómedían ætlar í sumar að bjóða uppá vikulegar sýningar á hinum kraftmikla einleik Gretti. Sýnt verður á ensku alla miðvikudaga í sumar í Edinborgarhúsinu. Í júlí mun leikhúsið síðan frumsýna nýtt íslenskt leikverk um Gísla á Uppsölum. Sýnt verður á söguslóðum í Selárdal í Arnarfirði eftir það verður farið í leikferð um landið. Ekki má svo gleyma hinni einstöku Act alone leiklistarhátíð sem verður haldin þrettánda árið í röð dagana 11. – 13. ágúst í sjávar- og einleikjaþorpinu Suðureyri.

Vestfirska leikhúsið er í góðum málum og verður það svo lengi sem við mætum í leikhúsið. Hafið hinar bestu þakkir fyrir komuna í hið vestfirska leikhús kæru áhorfendur án ykkar mundum við ekki bara hjara heldur hverfa á einhver allt önnur svið.

Elfar Logi Hannesson, þjónn leikhússins