Uppfærsla Íslensku óperunnar á Ástardrykknum eftir Donizetti hlaut afbragðsgóðan dóm í heilsíðuumfjöllun í einu virtasta óperutímariti heims, Opera Now, í janúar/febrúar-heftinu árið 2010. Gagnrýnandinn Ingrid Gäfvert kom hingað til lands á frumsýninguna og segir í upphafi greinar sinnar: „Kannski eru erfiðir tímar á Íslandi en opnunarsýning vetrarins hjá þjóðaróperunni var einstaklega skemmtilegur viðburður.“

 

Gäfvert fer lofsamlegum orðum um alla þætti sviðsetningarinnar, einkum leikstjórn Ágústu Skúladóttur og hljómsveitarstjórn Daníels Bjarnasonar, og hrósar þó sérstaklega íslensku söngvurunum í hástert:

„Garðar Thór Cortes var fullkominn Nemorino, unglegur og hjartanlega einlægur á sviðinu, með ítalskan blæ sem var sérstaklega fallegur í mjúkum, lágværum köflum og sýndi sig vel í hinu gælandi Una furtiva lagrima. Sem Adina passaði Dísella Lárusdóttir fullkomlega við hann í lýrískum yndisleika, peppuðum upp af öruggum og glitrandi háum tónum. Hin svala og sjálförugga ljóska í smart svörtum og fjólubláum fötum var ekki síður tjáningarrík en Cortes og jafnvægið sem þau náðu í leikgleði og hjartasárum var eftirtektarvert. Hinn alþjóðlega þekkti Wagner-barítón, Bjarni Thor Kristinsson, aðlagaði hina kraftmiklu rödd sína vel að sveigjanleikanum sem Dulcamara krefst og hans að því er virðist góðhjartaði karaketer var blandinn Mefistófelískri illkvittni, sem skein gegn um glaðværð hans á skemmtilegan hátt. Sá sem fyllti kvartett aðalsöngvaranna var Ágúst Ólafsson í ógleymanlega fyndinni útfærslu á hinum sjálfsupptekna og yfirboðskennda Belcore.“

Lokasýningin á Ástardrykknum stendur nú fyrir dyrum en hún verður næstkomandi laugardag, 23. janúar kl. 20. Er þetta fimmta aukasýningin sem bætt var við upphaflegan sýningafjölda, en sýningin hlaut einróma lof íslenskra gagnrýnenda og gesta og er ein af aðsóknarmestu sýningum Íslensku óperunnar á undanförnum árum.

Einvalalið ungra íslenskra söngvara tekur þátt í sýningunni, en aðalhlutverkin syngja þau Garðar Thór Cortes, Dísella Lárusdóttir, Bjarni Thor Kristinsson, Ágúst Ólafsson og Hallveig Rúnarsdóttir. Listrænir stjórnendur eru Ágústa Skúladóttir leikstjóri, Guðrún Öyahals leikmyndahönnuður, Katrín Þorvaldsdóttir búningahönnuður, Páll Ragnarsson ljósahönnuður og Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri, auk þess sem kór og hljómsveit Íslensku óperunnar tekur þátt í sýningunni.