Leikhópurinn Háaloftið frumsýnir leikverkið Lokaæfingu eftir Svövu Jakobsdóttur á afmælisdegi höfundar 4. október. Uppsetningin er hluti af lestrarhátíð Bókmenntaborgar sem í ár er tileinkuð Svövu og hennar verkum.

Hjón á fertugsaldri loka sig af vikum saman niðri í heimatilbúnu neðanjarðarbyrgi. Fullkomin einangrun afhjúpar tilveru þeirra og smám saman mást út mörk raunveru og ímyndunar.

Umgjörð verksins er hið sára hlutskipti manneskjunnar að vera í stöðugri leit að öryggi í ótryggum og hættulegum heimi, en fyrst og fremst er staða og samskipti kynjanna, átök og ávinningar hjónabandsins, hlutskipti tveggja einstaklinga sem ákveða að deila saman sjálfskipaðri útlegð, sú saga sem höfundi liggur á hjarta; saga sem snertir okkur öll.

Leikarar eru Þorsteinn Bachmann, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Kristín Pétursdóttir. Leikstjóri er Tinna Hrafnsdóttir.

Verkið er sett upp í tilefni þess að í ár er 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna og Svava Jakobsdóttir hefði orðið 85 ára þann 4. október. Svava var ötul baráttukona fyrir jafnrétti, ein af okkar fyrstu konum á Alþingi og vakti mikla athygli með skrifum sínum.

Leikhópurinn Háaloftið var stofnaður af leikurunum Tinnu Hrafnsdóttur og Sveini Geirssyni árið 2011. Fyrri sýningar á vegum Háaloftsins eru Hrekkjusvín árið 2011 í Gamla bíó, Útundan árið 2014 í Tjarnarbíó og Ekki hætta að anda árið 2015 í Borgarleikhúsi.

Aðstandendur

Uppsetning: Háaloftið

Leikstjórn: Tinna Hrafnsdóttir

Leikarar: Þorsteinn Bachmann, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Kristín Pétursdóttir

Leikmynd: Stígur Steinþórsson

Búningar: Una Stígsdóttir

Tónlist: Sveinn Geirsson

Aðstoðarleikstjóri: Arnmundur Ernst Backman

Lýsing: Arnþór Þórsteinsson

Verkið á heimasíðu Tjarnarbíós: http://tjarnarbio.is/index.php/vaentanlegt/201-lokaaefing

Verkið á Miða.ishttp://midi.is/leikhus/1/9141/Lokaafing