Leikarar Þjóðleikhússins leggja í dag upp í sína þriðju leikferð á vegum Farandleikhúss Þjóðleikhússins. Að þessu sinni ferðast leikhópur með sýninguna Sá ljóti til níu framhaldsskóla á landsbyggðinni og hefst ferðalagið á Akranesi. Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á leiksýningar sem höfða til ungs fólks, meðal annars í því skyni að efla leikhúsáhuga þessara leikhúsgesta framtíðarinnar. Liður í því markmiði að ná betur til ungs fólks var stofnun farandleikhúss sem ferðast milli framhaldsskóla landsins.
 
Leikritið Sá ljóti var frumsýnt á Smíðaverkstæðinu á liðnu vori og hlaut frábærar viðtökur. Leikstjóri sýningarinnar Kristín Eysteinsdóttir var valin leikstjóri ársins á Grímuhátíðinni í júní. Sá ljóti er svört kómedía um okkar tíma, bráðsmellin og martraðarkennd í senn. Hér er tekist á við brennandi spurningar um samkeppnisþjóðfélag nútímans og fegurðardýrkunina, jafnframt því sem höfundur veltir upp tilvistarlegum spurningum um það hvað við erum í raun, og hvað greinir okkur frá öðrum manneskjum. Er það í raun og veru fallega fólkið sem lifir besta kynlífinu, hefur mestu völdin og upplifir mestu hamingjuna? Ef það er hægt að breyta andlitinu á fólki, af hverju ætti þá einhver að sætta sig við að vera ófríður? Er nóg að vera „falleg manneskja“, eða þarf maður líka að líta vel út? Er jafnvel hægt að vera of fallegur? Þetta leikrit Mariusar von Mayenburg er frábærlega skrifuð gamansöm ádeila á ímyndarsköpun, yfirborðsmennsku og dómhörku. Leikhópurinn fer hráa og umbúðalausa leið að þessu hárbeitta verki og skapar úr því eftirminnilega sýningu þar sem list leikarans er í fyrirrúmi.
 
Leikarar í sýningunni eru Dóra Jóhannsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Stefán Hallur Stefánsson og Vignir Rafn Valþórsson, en þau stunduðu öll nám á svipuðum tíma við leiklistardeild Listaháskóla Íslands, og hafa meðal annars starfað saman áður undir merkjum leikfélagsins Vér morðingjar. Um leikmynd og búninga sér Stígur Steinþórsson. Hallur Ingólfsson semur tónlist en lýsingu hannar Hörður Ágústsson. Þýðandi verksins er Bjarni Jónsson.
 
Leikferðin um landið stendur út október en í nóvember verður verkið að nýju tekið til sýninga á Smíðaverkstæðinu. Sérstakur samstarfsaðili þessa verkefnis er Vodafone sem styrkir leikferðirnar en sýningarnar á landsbyggðinni eru ókeypis fyrir nemendur skólanna. Fyrri sýningar Farandleikhússins, Patrekur 1,5 og norway.today vöktu verðskuldaða athygli og hlutu góðar undirtektir bæði meðal nemenda og annarra gagnrýnenda.
 
Sýningayfirlit:
 
6/10 Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi
8/10 Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, tvær sýningar í leikhúsinu í Vestmannaeyjum
14/10 Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, sýnt í Sindrabæ á Höfn í Hornafirði
15/10 Verkmenntaskóli Austurlands, sýningar í menningarmiðstöðinni á Eskifirði
16/10 Menntaskólinn á Egilstöðum, nemendasýning og önnur sýning fyrir almenning, sýnt í Sláturhúsinu
22/10 Framhaldsskólinn á Laugum og Framhaldsskólinn á Húsavík, sýnt á Laugum
23/10 Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Sauðárkróki
28/10 Fjölbraut Suðurnesja í Keflavík
29/10 Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi, tvær sýningar.
 
Nánari upplýsingar veitir Kristún Heiða Hauksdóttir kynningastjóri Þjóðleikhússins (kristrun@leikhusid.is / 585 1240 / 864 8804)

{mos_fb_discuss:2}