ImageFræðsludeild Þjóðleikhússins og fjórir stuðningsmenn ljóðsins hafa tekið höndum saman um að halda nokkrar ljóðaskemmtanir á þriðjudagskvöldum í Leikhúskjallaranum næstu vikurnar.

Nokkur umræða hefur farið fram að undanförnu þar sem bókmenntamenn og ljóðaunnendur hafa harmað að ljóðið hafi orðið hornreka í þeirri umfjöllun og athygli sem bókmenntir fá á Íslandi. Til að freista þess að snúa þessari þróun að einhverju leyti við mun fræðsludeild Þjóðleikhússins, í samvinnu við þau Eystein Þorvaldsson, Ástráð Eysteinsson, Sigurbjörgu Þrastardóttur og Hjalta Snæ Ægisson, standa fyrir þematengdum ljóðaskemmtunum í Leikhúskjallaranum undir yfirskriftinni Ljóðs manns æði. Umsjón hefur Þórhallur Sigurðsson, leikstjóri og deildarstjóri fræðsludeildar.

Fyrsta ljóðaskemmtunin verður 14.mars nk. en þá verður fjallað um Útrás í ljóðum eða yrkingar um útrásina, frá miðöldum til okkar daga, auk þess sem komið verður inn á íslenska landkönnun og landnám erlendis. Hvernig er ljóðagull sótt í greipar útlendinga? 28. mars er komið að Ljóðinu í líkamlegri nálægð – líkama, útliti, nautnum og sársauka í ljóðum. 11. apríl er yfirskriftin Mér brennur í muna. Minningamyndir. Eru ljóð minnisvélar? Hvað varðveitir ljóðið og hvernig? Hvað kveikir minningar? Hver eru tengsl mælenda, minninga og ákveðinna staða? Sótt og dauði íslenskunnar er heiti ljóðaskemmtunar 25. apríl, en þá verður rætt um um margboðað andlát móðurmálsins. Verður ljóðlistin lífgjafi þess? Hvernig tekur ljóðið á tungumálinu?

Flytjendur verða leikarar, höfundar og fleiri. Leitast verður við að skapa ljúfa stemmingu og gestir geta notið veitinga meðan á dagskránni stendur. Skemmtanirnar hefjast kl. 21:00 í Leikhúskjallaranum en húsið verður opnað kl. 20:30.