Hjartnæm og fjörmikil sýning um tilfinningaríka vináttu og samskipti skrímslanna vinsælu verður frumsýnd í Kúlunni 28. desember 2011. Ævintýri litla skrímslisins og stóra skrímslisins og innileg samskipti þeirra láta engan ósnortinn. Skrímslin tvö hafa eignast ótal aðdáendur en bækurnar um þau hafa komið út víðsvegar um heiminn, hlotið lofsamlega dóma og fjölda verðlauna. Ekkert lát virðist vera á vinsældum þeirra. Litla skrímslið og stóra skrímslið stíga nú í fyrsta sinn á leiksvið, en leikritið byggist á fyrstu bókunum og þar reynir vissulega á vináttu og hugrekki þeirra félaga.

Litla skrímslið og stóra skrímslið eru ólíkar persónur og virðast ekki eiga margt sameiginlegt. En undir svörtum og loðnum feldunum titra viðkvæm hjörtu sem þrátt fyrir allt slá í takt. Lítil skrímsli þurfa stundum að hrópa hátt svo í þeim heyrist og stór skrímsli geta verið lítil í sér. Þó að stundum slettist upp á vinskapinn kunna skrímslin að snúa bökum saman þegar á reynir eins og sannir vinir gera.

Áslaug Jónsdóttir skrifar nú sitt þriðja leikrit fyrir Kúluna en fyrri leikrit hennar, Gott kvöld og Sindri silfurfiskur, hafa glatt fjölmörg hjörtu. Gott kvöld hlaut á sínum tíma Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins og Sindra silfurfiski var boðið á Bibu barnaleiklistarhátíðina í Lundi og á alþjóðlega barnaleiklistarhátíð Assitej í Malmö á liðnu vori.

Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson, Friðrik Friðriksson leikur litla skrímslið og Baldur Trausti Hreinsson leikur stóra skrímslið.

{mos_fb_discuss:2}