Síðasliðnar vikur hefur Leikfélagið Grímnir staðið í stórræðum. Það er ekki á hverjum degi sem leikfélag  úti á landi setur upp þrjár leiksýningar á einum mánuði. Síðastliðin laugardag frumsýndi leikfélagið Litlu Hryllingsbúðina eftir Howard Ashman og Alan Menken, sem byggð er á samnefndri kvikmynd Rogers Corman. Sýningin er sýnd á Hótel Stykkishólmi og leikstjórn er í höndum Guðjóns Sigvaldasonar, en hann stýrir einnig Kvöldhúmi og Karíusi og Baktusi sem líka eru í sýningum hjá leikfélaginu.

Allir sem þekkja eitthvað til Litlu Hryllingsbúðarinnar, hvort sem er í kvikmynda- eða leikhúsformi, vita að sagan gerist í niðurnýddri  blómabúð í skuggahverfi borgar, og að plantan Auður tvö er komin þar til að vera. Baldur sem rekur blómabúðina í skugga uppeldisföðurs síns, uppgötvaði þessa plöntu og nefnir hana í höfuð draumadísar sinnar. En draumadísina Auði, dreymir um að losna frá kvalarlostafíkn tannlæknisins kærasta síns. Verkið fylgir sögu þeirra gegnum kvennahóp sem á götuna sem athvarf.

Tónlistin er flutt af fjögurra manna hljómsveit undir stjórn Þorkels Mána Þorkelssonar Í sýningunni taka þátt þrettán leikarar, auk tónlistarmanna, sem og stór hópur bakhjarla sem gera leikfélaginu það kleift að setja á svið eins viðamikla sýningu. Sýningar á Litlu Hryllingsbúðinni verða í desember.

Leikfélagið Grímnir sýnir líka Karíus og Baktus en þeir kumpánar hrjá margan manninn, og eru svo sannarlega ekki ákjósanlegir gestir. Nú eru þeir félagar komnir  í Stykkishólm og ætla að sýna hversu megnugir þeir eru á Hótelinu. Það er Guðjón Sigvaldason sem leikstýrir.

Hér gefst  tækifæri á að fylgjast með þeim félögum sem leiknir eru til skiptis af Hrafnhildi ín Karlsdóttur og Svövu Gunnarsdóttur annarsvegar og Benedikt Óskarssyni og Leifi Harðarsyni hinsvegar. Umgjörð leikritsins er nokkuð óvenjuleg því verkið gerist innan í tanngarðinum á Jens nokkrum, og er leikmyndin öll saumuð og uppblásin eins og hoppukastalar. Þá hefur sjaldan sést eins voldugur tannbursti á sviði hér á landi. Sýningar á leikritinu verða auglýstar sérstaklega, en ungir sem aldnir eru hvattir til að kíkja við hjá Karíus og Baktusi, og komast að því hvort þeir hafi þörf á að kíkja til tannlæknis, eins og hann Jens.

Næstu sýningar

Litla Hryllingsbúðin 
3.sýning – Fimmtudagur 2. desember, kl. 20:00
4.sýning – Föstudagur 3. desember, kl. 23:00
5.sýning – Laugardagur 4. desember, kl. 20:00

Karíus og Baktus
3.sýning – Laugardagur 4. desember, kl.14:00
4.sýning – Sunnudagur 5. desember, kl.14:00

Sýnt er í Hótel Stykkishólmi. Miðapantanir og upplýsingar í síma 894-7900.

{mos_fb_discuss:2}