Föstudaginn 20. ágúst kl. 20 frumsýna 13-16 ára nemendur Leikgleði námskeiða Leikfélags Mosfellssveitar söngleikinn Lísa í Undralandi eftir sögu Lewis Carroll. Þýðingu leikgerðar annaðist Agnes Þ. Wild og umsjón tónlistar annast Sigrún Harðardóttir en þær eru jafnframt leikstjórar. Agnes stundar nám í East 15 leiklistarskólanum í Bretlandi og Sigrún tónlistarnám í Listaháskóla Íslands.

Krakkarnir hafa staðið í ströngu undanfarið við að æfa leikritið sem segir frá stúlkunni Lísu, sem dettur ofan í kanínuholu og lendir í ýmsum ævintýrum í Undralandi. Eftir hlé er sögð önnur saga af Lísu sem nefnist „Í gegnum glerið“. Í leikritinu kynnist Lísa ýmsum kunnum ævintýrapersónum á borð við brjálaða hattarann, hérann, tólffótunginn, tvíburana og hláturköttinn. Söngleikurinn er stútfullur af skemmtilegum lögum m.a. eftir Valgeir Skagfjörð og Stephen Schwartz.

Leiklistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6-16 ára eru búin að vera í fullum gangi hjá leikfélagi Mosfellssveitar í sumar. 10-12 ára krakkar hafa sett upp leikritin “Fríða og Dýrið” og “Leitin að Nemó”. Samhliða leiklistarnámskeiðinu var haldið námskeið í förðun og búningagerð. Eva Björg Harðardóttir hefur haldið utan um það og leitt hóp af áhugasömum stúlkum um undraheima leikgervanna.

Í söngleiknum sameinast því kraftar ungs fólks á ýmsum sviðum og er óhætt að lofa góðri skemmtun í Bæjarleikhúsinu fyrir unga sem aldna. Fleiri sýningar verða sunnudaginn 23. ágúst kl. 16 og á bæjarhátíðinni okkar “Í túninu heima” 28. og 29. ágúst kl. 16. Vert er að benda á sumarleik í tengslum við sýninguna sem má finna á facebook undir „Söngleikurinn Lísa í Undralandi“. Miðapantanir eru í síma 566 7788.

{mos_fb_discuss:2}