Leikhópurinn Lotta sýnir Litlu gulu hænuna, glænýtt íslenskt leikrit með söngvum um allt land í sumar. Þetta er níunda sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn leikið sér við Hróa hött, Gilitrutt, Stígvélaða köttinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. Frumsýnt var í Elliðaárdalnum í Reykjavík miðvikudaginn 27. maí en í framhaldinu ferðast hópurinn með sýninguna og heimsækir yfir 50 staði víðsvegar um landið.

Höfundur Litlu gulu hænunnar er Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er fimmta leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið. Textarnir eru allir eftir Baldur Ragnarsson en lögin samdi Baldur ásamt þeim Rósu Ásgeirsdóttur og Birni Thorarensen sem einnig eru í hópnum.

Söguna um Litlu gulu hænuna þekkja flestir en ævintýrið hefur verið notað fleiri áratugi til að kenna börnum mikilvægi þess að allir hjálpist að. Lotta hefur ákveðið að krydda þessa hefðbundnu sögu örlítið upp og bæta við heilu ævintýri í viðbót. Hver segir líka að litla gula hænan sé ekki einmitt sama hæna og verpir gulleggjum fyrir risann í ævintýrinu um Jóa og baunagrasið? Alls eru sex leikarar í sýningunni sem skipta á milli sín níu hlutverkum. Þá er flutt lifandi tónlist, söngur og dans og því nóg um að vera. Þessu er síðan öllu haldið saman af leikstjóranum og er hann enginn annar en Vignir Rafn Valþórsson.

Miðaverð á sýninguna er 1.900 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.

Í gær kom út myndband við Risalagið úr sýningunni Litla gula hænan með Leikhópnum Lottu. Nú þegar hefur myndbandið fengið mikla spilun enda enginn annar en Sigurjón Kjartansson sem fer með hlutverk risans og syngur þar með lagið.

 Risalagið kom út á nýútkominni plötu hópsins sem ber nafn sýningarinnar – Litla gula hænan. Platan inniheldur allt leikritið auk lögin í sýningunni.

Risalagið semur enginn annar en gítarleikari Skálmaldar Baldur Ragnarsson en Baldur hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu allt frá stofnun hópsins. Lagið var samið undir miklum HAM áhrifum og langaði hópinn því að kanna hvort að Sigurjón Kjartansson sjálfur væri ekki til í að ljá risanum rödd sína. Hann sló til og er þetta í fyrsta sinn sem Leikhópurinn Lotta fær gestarödd á plötuna sína. Á móti honum syngur Litla gula hænan sem leikin er af Sigsteini Sigurbergssyni og minnir söngur hans um margt á annan söngvara HAM Óttarr Proppé.

En sjón er sögu ríkari og hlustun lagi líkust svo njótið vel – https://www.youtube.com/watch?v=dbt9KYULwPA

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is og í síma 770-0403.

Myndir má síðan nálgast hér:

https://www.dropbox.com/sh/f4z21dooje1p5n9/AACLC2i6eu0KznsIzWb01GV_a?dl=0