Leikfélag Kópavogs: Svarti kassinn
Höfundur: Hrefna Friðriksdóttir
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir

Leikfélag Kópavogs á 60 ára afmæli í ár og til að ljúka góðu afmælisári var ákveðið að ráðast í gerð Svarta kassans, en sýningin er samsköpunarverk höfundar, leikstjóra og leikhópsins. Svartur kassi innan í svörtum kassa, hvað getur verið meira viðeigandi þegar kemur að leikhúsi?

Ég brá undir mig betri fætinum og skellti mér í leikhúsið í Funalind í góðum félagsskap. Ég vissi svo sem ekki við hverju ég átti að búast, a.m.k. bjóst ég alls ekki við því sem við mér tók.

Það er ekki hægt að lýsa þessu verki eins og hefðbundnu leikriti með afgerandi söguþræði. Vissulega er mikil saga í gangi, en oftast er hún opin til túlkunar fyrir áhorfandann.

Það sem límir sýninguna saman og tengir öll atriðin eru epli. Epli hefur verið tákn hins forboðna síðan Eva beit í það og bauð Adam með sér. Eplin eigan stóran sess í öllum senum og meðal annars fáum við að hitta Stubb sem fékk aldrei nein epli, gömlu eplafjölskyldurnar ræða saman um nýju tegundirnar sem er verið að flytja inn og í einni senunni skiptir höfuðmáli að eiga sem allra mest af eplum, helst falin á aflandseyjum.

Að mínu mati er hægt að sjá þetta verk á tvennan hátt. Annars vegar fallegt verk með ævintýralegri lýsingu og tónlist, jafnvel dálítið „artý fartý“ sem skilur kannski ekki meira eftir sig en fallega og skemmtilega upplifun eina klukkustund. Hins vegar er hægt að skyggnast dýpra og sjá þá ádeilu margskonar á þetta samfélag sem við lifum í. Fegurðarstaðla, peningagræðgi, svik, rasisma og alla þessa kassa sem er ætlast til að við pössum inn í.

Það frábæra við þetta verk er einmitt það að allir ættu að geta séð það út úr því sem þeir vilja. Sýningin er einnig mátulega löng, hætt er við að hún hefði orðið of langdreginn hefði hún verið lengri. Á köflum hefði mátt þétta atriðin, einkum í byrjun, en það varð betra eftir því sem á leið.

Nokkrar senur voru sérstaklega minnisstæðar. Upphafsatriðið var kraftmikið og gaf strax til kynna að hér væri á ferðinni mögnuð sýning. Svarti kassinn sem mátti alls ekki snerta var opnaður, bitið var í forboðin epli og í kjölfarið upphófst mikil kynferðisleg spenna, kaos og dauði.

Önnur minnisstæð sena fjallaði um núvitund, að njóta augnabliksins. Einn leikari, Ingvar Örn Arngeirsson, stóð á sviðinu að borða epli í nánast algerri þögn. Í miðri senu dundu við þung högg, ungviði Kópavogsbæjar var að leika sér að því að berja leikhúsið að utan og hamast á hurðinni. Þetta hefði getað eyðilagt senuna en Ingvar haggaðist ekki. Hann hélt áfram að njóta, vera í núinu og þar með fundu áhorfendur lítið fyrir þessum truflunum. Á hann hrós skilið fyrir frammistöðuna.

Lokasenan situr líka eftir í minninu. Leikhópurinn bjó til hópmynd af engli annars vegar og djöfli hins vegar, lýsingin studdi vel við og tónlistin magnaði áhrifin. Vel gert.

Tíu leikarar tóku þátt í sýningunni. Þau stóðu sig með mikilli prýði öll sem eitt og samspilið þeirra í milli var afar fallegt og mjög líkamlegt. Þau dönsuðu, sungu og bjuggu til ótrúlega fallegar hópmyndir á sviðinu og líkamstjáningin var mikil. Leikgleðin skein í gegn og hreif áhorfandann með inn í þennan skrítna litla heim sem þau hafa skapað.

Búningarnir undirstrikuðu hópvinnuna. Allir voru klæddir í hvítar buxur og hvítar mussur en þó voru engir tveir alveg eins. Sama má segja um sminkið, hvítmáluð andlit með rauðum áherslum, allir líkir en enginn eins og hárgreiðslurnar frekar undarlegar, á góðan hátt. Allt passaði þetta vel saman.

Hljóðmyndin sem fylgdi verkinu var vel gerð og frumsamin tónlist Halldórs Sveinssonar var drungaleg þegar svo bar undir og glaðleg þegar það átti betur við. Hann á sannarlega hrós skilið fyrir.

Lýsingin var úthugsuð eins og allt annað þegar kom að umgjörð verksins og rammaði vel inn atriðin. Sviðsmyndin var einföld við fyrstu sýn, en eftir því sem leið á sýninguna sá maður að hún var talsvert flóknari en virtist í upphafi. Svartur veggur sem lokaði nánast öllu sviðinu í byrjun svo einungis var lítill gólfflötur fyrir leikarana. Eftir því sem leið á verkið stækkaði sviðið og í ljós komu ýmsir fídusar sem leyndust snilldarlega á þessum svarta vegg. Engu var ofaukið og allt hafði tilgang.

Heimferðin yfir heiðina einkenndist af áhugaverðum hugrenningum mín og samferðamanna minna um leikritið, listina og lífið og ég vil hvetja alla til að eyða klukkustund af lífi sínu til að sjá þetta verk. Svo langaði okkur afskaplega mikið í epli einhverra hluta vegna.

Takk fyrir mig.

Sigríður Hafsteinsdóttir