Leikfélag Selfoss
Beint í æð 
Höfundur: Ray Cooney
Þýðing: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson

Á mínum ungdómsárum voru sýndir þættir í sjónvarpinu sem hétu Líf og fjör í læknadeild. Þættir þessir komu upp í hugann á sýningunni Beint í æð eftir Ray Cooney. Leikritið gerist á spítala og  í þessari uppsetningu er sá spítali Landakot og blasir Landakotskirkja við út um glugga sem er á leiksviðinu. Í leikritinu er ekki verið að fjalla um spítala með mikinn flæðivanda og lítið fer fyrir sögum af heilbrigðisstarfsfólki sem er að sligast. Í verkinu Beint í æð leikur starfsfólk spítalans á alls oddi og áhyggjuleysið er allt umlykjandi.

Söguþráðurinn er í stuttu máli þannig að taugalæknirinn Jón Borgar situr við skrifborð sitt og er að undirbúa fyrirlestur. Aðrir starfsmenn eru að undirbúa myndband sem á að sýna á jólaskemmtun. Inn á skrifstofu Jóns Borgar kemur Díana fyrrum starfsmaður sjúkrahússins. Hún færir Jóni Borgari fréttir sem koma af stað atburðarrás sem sér ekki fyrir endann á fyrr en undir lok verksins og verður ekki upplýst um hér til að spilla ekki fyrir þeim sem eiga eftir að sjá sýninguna.

Sýningin er í einu orði sagt bráðfyndin og leikhópur Leikfélags Selfoss er mjög þéttur. Í sýningunni mæðir mest á Stefáni Erni Viðarssyni í hlutverki Jóns Borgar og einnig á Runólfi Óla Daðasyni í hlutverki Grettis Sig. Þeir standa sig mjög vel og þegar þeir dulbúast sem Jórunn (hjúkrunarfræðingur) eiga þeir báðir sannkallaðan stjörnuleik.

Allir aðrir leika líka mjög vel og má segja að hér sé vel skipað í hvert hlutverk. Davíð Helgason er til dæmis mjög sannfærandi í hlutverki lögregluþjónsins. Hannes Blandon í hlutverki Manfreds og Guðný Lára Gunnarsdóttir í hlutverki Jórunnar eru bæði í mjög kómísk í sínum hlutverkum og kitla oft hláturtaugar áhorfenda.

Leikmynd, búningar, tónlist og ljós halda vel utan um verkið en verkið gerist allt inni á einni skrifstofu, og glugginn, sem nefndur er hér í upphafi, er mikið notaður þegar líður á verkið.

Eins og í öllum försum er innihaldið verksins ekki aðalatriðið heldur eru það orðaleikir og almennur misskilningur sem drífa það áfram. Innihaldsleysið truflaði ekki hér, var miklu frekar kærkomin hvíld frá fréttavaðli og öðrum áhyggjum.

Undirrituð fór á fjórðu sýningu verksins en enn eru einhverjar sýningar eftir og óhætt að hvetja allt til að fara að sjá verkið. Leikstjórinn Gunnar Björn Guðmundsson heldur vel utan um leikhópinn og spurning hvort hann fái ekki bara vinnu á Landspítalnum til að létta aðeins stemmninguna þar.

Elín Gunnlaugsdóttir