Hinn geðþekki fyrrverandi ritari Bandalagsins, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir býr nú í Montpellier í S-Frakkalandi. Hún hefur gert örlitla úttekt á menningar- og mannlífi þar í borg.
Menning og mannlíf í Montpellier
Götuleikhús hefur verið í örum vexti á Íslandi á liðnum misserum. Sumrin eru að verða undirlögð af bæjarhátíðum hvers konar í flestum þéttbýliskjörnum og er það vel. Í framhaldi af því hefur þó bólað á umræðum um hvað sé götuleikhús og hvenær sé um götuleikhús að ræða og hvenær það eigi að heita eitthvað annað. Í ljósi þessarar umræðu var athyglivert fyrir undirritaðan Íslending að koma hingað í suðrið, þar sem götulistir lúta alfarið öðrum lögmálum en heima á klakanum. Það sem breytir mestu er trúlega “betlimenningin” hérna. Hér þarf ekki að styrkja leikhópa til þess að vera með skemmtiatriði á götum úti þar sem margir virðast hafa það sem aðalatvinnu að syngja, dansa eða skemmta á annan hátt á torgum og í fjölförnum göngugötum.
Listamenn eða atvinnubetlarar?
Það verður að segjast alveg eins og er að ég hef gert skammarlega lítið af því að sækja menningarviðburði hér um slóðir enn sem komið er. Ég hef nú haft búsetu hér í Montpellier, landi Fransmanna um næstum þriggja mánaða skeið og lítið mátt vera að því að kynna mér hvað er á fjölunum (eða hvar bestu fjalirnar eru). Hér eltir menningin mann hins vegar uppi, láti maður það eftir sér að álpast út fyrir dyr. Gangi maður eftir helstu götum og torgum bæjarins sér maður alltaf einhverja hljóðfæraleikara, gjarnan með skrítin og skemmtileg hljóðfæri, skemmta gestum og gangandi, gjarnan fimleikafólk og „jugglara“, jafnvel eldgleypa eða brúðuleikhús. Það hefur reyndar eitthvað dregið úr eftir að vetur skall á (sem gerðist stundvíslega á miðnætti 1. nóvember) en götumenningin er hvergi nærri horfin. Eldgleypa sá ég til dæmis ekki fyrr en á hrekkjavöku (31. október) en oft síðan. Allt er þetta lið svo náttúrulega að betla peninga og fólk virðist verða mjög örlátt þegar kemur að götulistamönnum. Hinn venjulegi túristi má hins vegar passa sig og halda aðeins í pyngjuna, þar sem margt er að sjá á hverjum degi og sjálfsagt auðvelt að lenda sjálfur í röðum betl-listamanna ef örlætið gengur úr hófi.
Það er alltaf eitthvað að gerast og ákveðnir aðilar virðast eiga sína föstu staði á torgunum og standa þar vaktina hvernig sem viðrar. Það er þó alltaf meira um að vera á sunnudögum. Hér hefur nefnilega ekki gripið um sig sú ógurlega vinnukergja að hafa alla skapaða hluti opna á sunnudögum. Nei. Þá er nánast allt lokað nema eitt og eitt kaffihús og þar lötrar um syfjulegt þjónustufólk með timburmenn sem kærir sig lítið um gesti. Á sunnudögum fara hins vegar allir út að þvælast með börnin sín og/eða foreldra. Sunnudagar eru alræmdir „bekkjadagar“ þar sem menn rölta um bæinn, gera svo sem ekkert og sitja á bekkjum og spjalla við vini og kunningja. Þetta heitir að „taka því rólega“ og „slappa af“. Man einhver Íslendingur hvernig það er gert? Þá tel ég ekki með þynnku fyrir framan sjónvarpið. Þá koma líka götulistamenn fram á sjónarsviðið sem aldrei fyrr. Það sama gerist þegar það er sól, sem er næstum alltaf á sumrin en ekki alveg eins algengt svona yfir háveturinn. Hér á eftir fer stutt upprifjun, svona eftir besta minni, helstu uppákomur sem ég hef rekist á á þvælingi mínum um miðbæinn.
Séð og heyrt
Mesta lífið er gjarnan á torgi sem heitir Place de Comedie og dregur nafn sitt af Opera de Comedie sem stendur við annan enda torgsins. Meðfram því endilöngu eru túristavæn kaffihús með útiborðum (og McDonalds) og þar er mjög vinsælt að skemmta og betla. Torgið nær niður að verslunarmiðstöðinni Polygone, en hinu megin við hana tekur við annað torg sem heitir Antigone og er svakalega flott mannvirki sem er afmarkað með tiltölulega nýlegum byggingum sem eru hannaðar í rómverskum stíl. Þó merkilegt sé er það torg oftast steindautt og lítið að gerast.
Það er sumsé fyrst og fremst frá Polygone upp að Opera de Comedie sem götulistamenn er að finna. Þaðan liggur síðan stór göngugata upp í gamla miðbæinn. Hún heitir rue de la Loge, sem við Íslendingar höfum náttúrulega breytt í Laugavegur, svona okkar á milli. Allavega, við byrjum niðri við Polygone og vinnum okkur upp eftir. Strax fyrir utan er gjarnan afspyrnu skemmtilegt tríó sem samanstendur af manni með harmonikku, öðrum með bassa sem lítur út eins og risavaxin balalaika með þrem strengjum og konu sem spilar á undarlegt borð-strengjahljóðfæri með tveimur tréskeiðum. Þau eru svakalega flink. Séu þau ekki á svæðinu eru þarna gjarnan menn með harmonikkur eða ungir menn að sýna breikdans. Á leiðinni upp á torgið gengur maður síðan gjarnan framhjá konu með fiðlu og hræðilegum svörtum trúbador. Hann er þarna næstum alltaf og gerir meira út á að vera fyndinn en góður. Held ég. Enda getur vel verið að hann sé fyndinn. Ég bara skil hann ekki ennþá. Síðan kemur maður upp á hlutann þar sem torgið er breiðast. Þar hef ég t.d. rekist á fimleikamenn, bæði eina og í hópum þar sem þeir príla hver upp á axlir annars og gera hvers konar skúlptúra úr sjálfum sér. Eins hef ég séð þarna eldgleypa á kvöldin og, það sem mér finnst flottast af öllu, látbragðsleikara sem þykjast vera styttur. Þeir eru gjarnan klæddir og sminkaðin eins og franskir aðalsmenn frá því í gamla daga eða jafnvel bronsaðir frá toppi til táar. Svo standa þeir alveg hreyfingarlausir (með augun og allt) og skipta bara um stellingu þegar einhver setur pening í dolluna þeirra. Það gera þeir með einni markvissri hreyfingu. Afspyrnukúl þegar vel er gert. Ég sá til dæmis einn gera þetta með tvo ketti prílandi utan á sér.
Uppi á torgi skiptast hljóðfæraleikarar oftast á um að skemmta gestum kaffihúsanna. Þar er oft nokkuð snjall klassískur gítarleikari, þverflautuleikari með undirleik af bandi og svo tríó sem ég held mikið upp á. Það samanstendur af tveimur harmónikkum og einni fiðlu og meginuppistaðan í prógramminu þeirra eru rússnesk þjóðlög. (Þegar þeir spila „Maíkvöld í Moskvuborg“ þá gef ég þeim pening.) Fyrir framan kaffihúsin eru síðan stundum strákar sem ýmist sprikla eftir nýmóðins tónlist og/eða henda hlutum upp í loftið og grípa þá aftur.
Í vetrarbyrjun var sett upp gamaldags hringekja á torginu. Hún er með því flottara sem ég hef séð á ævinni. Henni er vel við haldið og hún er í gangi meira og minna allan daginn. Hún er í góðu samræmi við aldraðar byggingarnar í kring og gefur torginu öllu ævintýralegan blæ. Þetta fyrirbæri hefur e.t.v. ekki sérstaklega listrænt gildi. Skapar samt alls ekki minni stemmingu en skemmtikraftarnir.
Þegar hér er komið sögu leggur maður í Laugaveginn. Þar er gjarnan tónlist, en þarna eru saxófónleikarar algengari en niðri á torginu. Þetta skapar djassaðri stemmingu. Þarna er nokkuð um tríó með kontrabössum, saxafónum og gítörum. Svo sér maður stundum „jugglara“ þarna uppfrá, en þeir eru ekkert sérstaklega góðir. Það er eiginlega eins og þeir séu að æfa sig. Það flottasta sem ég hef séð á Laugaveginum var brúðuleikhús sem ég rakst einu sinni á. Þetta var mjög einfalt, ein kona með gamaldags brúðuleikhús-kassa og tvær brúður sem hún lét dansa eftir tónlist sem hljómaði eins og hún kæmi úr lírukassa. Þetta skapaði ofsalega fallega stemmingu og var svolítið eins og að fara aftur í tímann um svona 100 ár.
Hér, eins og annars staðar í Frakklandi, er mikið um hvers konar mótmæli. Þá sjaldan þeim í ráðhúsinu dettur í hug að ákveða eitthvað eru um leið komnir stórir hópar fólks fyrir utan til að láta skoðun sína í ljós. Þessi mótmæli eru gjarnan mjög listræn í framsetningu. Um daginn var ákveðið að lækka styrki til sjálfstæðrar lista- og menningarstarfsemi hér í Montpellier. Þegar ég gekk framhjá ráðhúsinu þann dag var mikið um að vera, mikill mannfjöldi saman kominn og allir með blóm. Fremst í flokki var lítil hljómsveit sem spilaði jarðarfararsálma og uppi á gosbrunninum gengt ráðhúsinu stóðu tveir menn með líkkistu á milli sín. Á henni stóð „Mort du spectacle“, „Dauði sýningarinnar“. Þetta var mjög áhrifamikið. Ég var náttúrulega ekki með myndavél.
Þjóðarböl eða þjóðmenning?
Ég held að götulistamenn í Montpellier kæri sig að mestu leyti kollótta um listrænt eða menningarlegt gildi. Þeir eru þarna eingöngu í þeim tilgangi að skemmta fólki og eignast jafnvel í leiðinni peninga fyrir bjór. Ekki veit ég hvort allt þetta fólk hefur götulistir sem aðalatvinnu. Getur þó vel verið þar sem atvinnuleysi er mikið hér um slóðir, sérstaklega á meðal verkafólks. Það hlýtur þó að vera ágætt að eiga þann möguleika að geta æft sig í einhverju kjánalegu og geta síðan unnið fyrir sér með því að fíflast á götum úti. Þetta reyndar gerir það að verkum að maður lítur hina betlarana „óhýrara“ auga. Þessa sem reyna ekkert til að vinna fyrir mat sínum, hanga bara úti á götu með aumingjasvip og sníkja peninga og sígarettur af gestum og gangandi. Þá rís Íslendingurinn í manni upp á aftirlappirnar þar sem það ljótasta sem hægt er að segja um nokkurn mann á Íslandi er „að hann nenni ekki að vinna“ og „að hann kunni ekkert að bjarga sér“. Listalífið á götunum hér er sem sagt sprottið af því þjóðarböli sem atvinnuleysi og fátækt er hér um slóðir. Það er napurleg staðreynd. En, þannig virðist nú heimurinn vera. Það er ýmist í ökkla eða eyra. Á Íslandi þarf fólk í fullri vinnu og jafnvel rúmlega það að stunda götulistir í sjálfboðavinnu, eigi að gera bæina líflegri eina og eina helgi. Hér þvælast menn hver um annan þveran við að skemmta örfáum og fúlum vegfarendum þar sem þeir hafa svo sem ekkert annað að gera. Svo við veltum aftur upp spurningunni sem ég kastaði fram í byrjun. Hvenær er götuleikhús götuleikhús? Hvenær eru menn að fremja listir og hvenær ekki? Gerir betlið listina ómerkilegri? Eða kannski merkilegri? Skemmtilegar vangaveltur en ég held að við þeim sé ekkert einhlýtt svar. Enda nýt ég þess bara í botn að labba heim úr búðinni, heyra 3-4 mismunandi tegundir af tónlist á leiðinni og sjá jafnvel fólk gera flotta hluti inn á milli. Kannski ein og ein mótmæli. Finnast ég vera óskaplega mikið menningarleg í nóvembersólinni og hugsa sem minnst, svona yfirhöfuð.
Þetta er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir,
sem skrifar frá Montpellier.