ImageNýtt aðventuævintýri eftir Þorvald Þorsteinsson, Leitin að jólunum, með tónlist Árna Egilssonar verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 26. nóvember nk. kl. 14:00. Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum fléttast inn í ævintýrið. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson.

Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar taka á móti litlum leikhúsgestum við aðalinngang Þjóðleikhússins. Með þeim í för eru tveir hljóðfæraleikarar og saman leiða þeir börnin með leik og söng um leikhúsið. Meðal viðkomustaða eru Kristalsalurinn, Leikhúsloftið og Leikhúskjallarinn, auk þess sem börnin fara um baksviðs í leikhúsinu. Börnin ferðast inn í ævintýraveröld jólanna og sjá leikþætti um jólin í gamla daga og í nútímanum.
Þorvaldur Þorsteinsson starfar jöfnum höndum sem rithöfundur og myndlistarmaður. Hann hefur skrifað bækur fyrir börn og fullorðna, sem og fjölda leikverka fyrir svið, útvarp og sjónvarp. Hann samdi meðal annars hinar vinsælu barnabækur um Blíðfinn, og leikgerð eftir þeim var sett upp í Borgarleikhúsinu. Fjölskylduleikritið Skilaboðaskjóðan var sýnt í Þjóðleikhúsinu. Meðal annarra leikrita hans má nefna Við feðgarnir, Maríusögur og And Björk of course…., auk þess sem hann hefur skrifað og leikstýrt fjölda “vasaleikrita” bæði í útvarpi og sjónvarpi.
Árni Egilsson er í fremstu röð íslenskra kontrabassaleikara og hefur leikið víða með sinfóníuhljómsveitum og spilað fjölda einleiksverka fyrir kontrabassa á Íslandi og víðar um Evrópu, sem og í Bandaríkjunum. Árni hefur búið í Los Angeles í Kaliforníu frá 1969 og er einn eftirsóttasti "stúdíó-bassaleikari" þeirrar borgar. Á seinni árum hefur Árni snúið sér að tónsmíðum og hann hefur samið mikið af kammermúsík, einleiksstykki fyrir kontrabassa, hljómsveitarverk, hljómlist fyrir leikhús og ballett og kórverk.
Leikendur í sýningunni eru Rúnar Freyr Gíslason, Þórunn Erna Clausen, Guðrún S. Gísladóttir, Hrefna Hallgrímsdóttir og Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir auk tveggja hljóðfæraleikara, þeirra Vadims Fedorov á harmónikku og Darra Mikaelssonar á fagott.
 
Árni Egilsson hefur samið ný lög við Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum, búningar eru í höndum Þórunnar E. Sveinsdóttur, Ásmundur Karlsson sér um lýsingu, höfundur leikmyndar er Geir Óttar Geirsson, Davíð Þór Jónsson sér um  tónlistarstjórn og útsetningar, Stefán Jörgen Ágústsson annast grímugerð og leikstjóri er sem fyrr segir Þórhallur Sigurðsson.

Sýningar verða á daginn, á aðventunni og fram í byrjun janúar. Almennar sýningar verða um helgar en sýningar fyrir hópa verða á virkum dögum. Sýningin tekur tæpa klukkustund.