Uppselt er á aðventuleikritið Leitina að jólunum í Þjóðleikhúsinu en sýningar þess eru að verða fastur liður í jólaundirbúningi margra. Þetta er í þriðja sinn sem verkið er sett upp í Þjóðleikhúsinu en það hefur notið mikilla vinsælda og hlaut meðal annars Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2006.

Sýningar á Leitinni að jólunum tóku við af sýningum á barnaleikritinu Gott kvöld í Kúlunni en sýningar þær hefjast að nýju milli jóla og nýárs og verða áfram um helgar eftir áramót. Sérstakar jólasýningar verða á leikritinu Gott kvöld þann 30. desember nk. Yngstu áhorfendurnir geta því fundið eitthvað fjörugt og skemmtilegt við sitt hæfi í Þjóðleikhúsinu.

Kúluna, barnasvið Þjóðleikhússins, er að finna á Lindargötu 7 en þar eru sýndar stuttar leiksýningar í litlu rými, þar sem yngstu leikhúsgestirnir eru leiddir inn í töfraheim leikhússins við aðstæður sem hentar aldri þeirra og þroska. Listrænn stjórnandi Kúlunnar er Þórhallur Sigurðsson en hann er jafnframt leikstjóri bæði Leitarinnar að jólunum og Góðs kvölds. Sýningar í Kúlunni eru venjulega á laugardögum og sunnudögum þegar krakkar eiga frí í skólanum og pabbar og mömmur og afar og ömmur hafa tíma til þess að fara með börnunum í leikhúsið.

Nánari upplýsingar um Kúluna og barnasýningar Þjóðleikhússins má finna á heimasíðunni www.leikhusid.is.