Borgarleikhúsið leitar að dreng á aldrinum 9-11 ára til að leika Billy Elliot. Hugsanlega veit hinn íslenski Billy ekki að hann er stjarnan sem leitað er að. Hefur þú séð strák klifra listilega í ljósastaur? Eða stökkva stórkostlega? Er einhver sem þú þekkir sem hefur aldrei leikið, dansað og sungið en hefur vissulega hæfileika til þess? Það getur verið að hinn íslenski Billy viti ekki að hann er hinn íslenski Billy. Sá sem við leitum að þarf ekki að hafa reynslu í dansi, leik og söng. Við ætlum að kenna honum. Allir drengir  á aldrinum 9-11 ára geta sótt um að verða Billy Elliot.

Prufur munu fara fram í Borgarleikhúsinu laugardaginn 10. maí kl 10.00.

Söngleikurinn Billy Elliot gerist í hörðum heimi þar sem lítið pláss er fyrir drauma barnanna. Sagan gerist í kolanámubæ í Bretlandi á stjórnunartíma Margrétar Thatcher. Þar búa aðallega námaverkamenn og flestra ungra drengja í þorpinu bíður það hlutverk að vinna í námunum eins og feður þeirra. Það sama á við um Billy, faðir hans og afi voru námaverkamenn og sömuleiðis bróðir hans, Tony. Þegar verkið hefst standa námaverkamennirnir í verkfalli en fjölskyldu Billy tekst þó að skrapa saman peningum svo Billy geti farið í hnefaleika. En á sama stað er verið að kenna og æfa dans og tónlistin úr danstímunum heillar hann. Billy fer að hreyfa sig í takt við tónlistina og uppgötvar sér til furðu að ekki einasta hefur hann gaman að því heldur er eins og hann sé fæddur til þess að dansa. Hann á sér draum sem samræmist ekki hugmyndum fullorðna fólksins um hvað við þurfum að gera til að lifa af. Smám saman fara heimar barnanna og fullorðna fólksins þó að skarast. Billy Elliot er þroskasaga unga fólksins og hinna fullorðnu. Mögnuð og falleg saga um fjölskylduna og það sem skiptir máli í lífinu.

Í söngleiknum fer saman falleg, hjartnæm saga með blússandi húmar og stórkostleg dans- og söngatriði undir leiðsögn Lee Proud danshöfundar úr Mary Poppins.

Höfundur: Lee Hall | Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson | Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson |Tónlist: Elton John | Danshöfundur:  Lee Proud

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á www.borgarleikhus.is