Þann 6. maí næstkomandi verður spennandi leikritunarvinnusmiðja á vegum Lakehouse og MAk í Samkomuhúsi Leikfélags Akureyrar. Þar gefst þátttakendum kostur á að bæta verk sín með æfingum, spuna og umræðum. Það er Árni Kristjánsson höfundur og leikstjóri sem leiðir námskeiðið en hann vann Grímuna á sínum tíma fyrir útvarpsverkið Söngur hrafnanna. Árni er útskrifaður leikstjóri frá Bristol Old Vic og er listrænn stjórnandi Lakehouse. Árni hefur kennt leikritun í Kvikmyndaskólanum, Tjarnarbíói og á vinnusmiðju á Vestfjörðum.

‘Það eru ótal margir efnilegir höfundar um allt land. Mörg þeirra pikkföst með eina eða þúsund frábærar hugmyndir í skúffunni. Mitt markmið er að losa um stífluna og koma hugmyndaflæðinu aftur af stað.’ segir Árni Kristjánsson, leikstjóri og leikritahöfundur.

Vinnusmiðjan hefst klukkan 10 að morgni og er átta tíma löng. Að smiðjunni lokinni verður svo opin samkoma um kvöldið þar sem brot úr verkunum verða leiklesin fyrir áhugasama.

‘Það getur oft verið einmanalegt að húka inni í herbergi og skrifa leikrit.’ segir Árni. ‘En á vinnusmiðjum eins og þessum gefst manni kostur á að fá innblástur frá öðrum, sjá eigin hugmynd í nýju ljósi og ég legg einnig áherslu á að allir leiki örlítið þó ekki sé gerð krafa um neina leiksigra.’

Hægt er að skrá sig með því að senda póst á lakehousetheatre@gmail.com en fjöldi þátttakenda er afar takmarkaður og því gott að skrá sig sem fyrst. Þátttökugjaldið er 12 þúsund krónur á mann.