Leikfélag Selfoss og Leikfélag Ölfuss taka höndum saman og standa fyrir leikritunarnámskeiði 16.-27. apríl. Kennari er Karl Ágúst Úlfsson. Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði síðastliðið haust en okkur fannst liggja í loftinu að félagar í þessum nágrannafélögum hefðu þörf fyrir að læra undirstöðuatriði leikritunar. Sótt var um styrk til Uppbyggingarsjóðs Suðurlands til að standa straum af kostnaði við námskeiðið og var markmiðið að þátttakendur gætu sótt það án endurgjalds. Styrkurinn var veittur og verkefnið sett af stað. Það var eins og við manninn mælt að það varð uppbókað á svipstundu og eru 18 þátttakendur skráðir til leiks. Námskeiðið hefst laugardaginn 16. apríl en kennt verður í fimm skipti eins og hér segir og kennt verður bæði í Þorlákshöfn og á Selfossi:

Laugardaginn 16. apríl frá kl. 10:00-16:00 í Versölum Þorlákshöfn

Mánudaginn 18. apríl frá kl. 19:00-23:00 á Selfossi

Miðvikudaginn 20. apríl frá kl. 19:00-23:00 í Versölum Þorlákshöfn

Mánudaginn 25. apríl frá kl. 19:00-22:00 í Versölum Þorlákshöfn

Miðvikudaginn 27. apríl frá kl. 19:00-22 á Selfossi.

Það er von okkar að þetta námskeið efli leikritun innan félaganna og leiði af sér enn frekara samstarf LS og LÖ.

Don Ellione og Magnþóra Kristjánsdóttir, formenn LS og LÖ