Skólinn starfar að Húnavöllum í A-Húnavatnssýslu dagana 11. til 19. júní.

Haldin verða þrjú námskeið og boðið verður uppá aðstöðu fyrir höfunda. Í fyrra var lögð áhersla á byrjendanámskeið og fylgt er þeirri hefð að bjóða upp á framhaldsnámskeið í kjölfarið. Ágústa Skúladóttir mun því mæta aftur og kenna Leiklist II sem byggir ofan á þann góða grunn sem hún lagði í fyrra. Sigrún Valbergsdóttur mætir einnig aftur til leiks. Hún kennir nú Leikstjórn II þar sem nemendum gefst kostur á að dýpka enn skilning sinn og reynslu af leikstjórn. Reyndari leikurum stendur til boða námskeið Steinunnar Knútsdóttur þar sem lögð verður áhersla á vinnu leikarans með leikverkið. Steinunn hefur einu sinni áður kennt svipað námskeið við skólann sem þótti bæði krefjandi og sérstaklega lærdómsríkt. Ath. Rúnar Guðbrandsson mun kenna námskeiðið í forföllum Steinunnar. Þá verður höfundum aftur boðið að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif með sama sniði og reynt var í fyrsta sinn í fyrra.

Bæklingur skólans starfsárið 2011 er hér á PDF formi.

 


Frá skólanefnd:

 

Kæra leiklistarfólk

Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin að Húnavöllum í sumar þar sem Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga verður settur í fimmtánda sinn þann 11. júní 2011.

Árið 2010 var okkar fyrsta starfsár að Húnavöllum eftir margra ára farsælt starf að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal. Hér tókst einstaklega vel til, aðstaðan er til fyrirmyndar, aðbúnaður mjög góður og móttökur allar eins og best verður á kosið. Hinn eini sanni skólaandi sveik okkur ekki frekar en fyrri daginn og óhætt er að segja að leiklistarskólinn hafi skotið nýjum rótum og náð að blómstra.

Í sumar verða þrjú námskeið í boði. Í fyrra var lögð áhersla á byrjendanámskeið og fylgt er þeirri hefð að bjóða upp á framhaldsnámskeið í kjölfarið. Ágústa Skúladóttir mun því mæta aftur og kenna Leiklist II sem byggir ofan á þann góða grunn sem hún lagði í fyrra. Sigrún Valbergsdóttur mætir einnig aftur til leiks. Hún kennir nú Leikstjórn II þar sem nemendum gefst kostur á að dýpka enn skilning sinn og reynslu af leikstjórn. Reyndari leikurum stendur til boða námskeið Steinunnar Knútsdóttur þar sem lögð verður áhersla á vinnu leikarans með leikverkið. Steinunn hefur einu sinni áður kennt svipað námskeið við skólann sem þótti bæði krefjandi og sérstaklega lærdómsríkt. Ath. Rúnar Guðbrandsson mun kenna námskeiðið í forföllum Steinunnar.

Þá verður höfundum aftur boðið að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif með sama sniði og reynt var í fyrsta sinn í fyrra. Ekki er um að ræða námskeið eða leiðsögn heldur gefst höfundum þarna fyrst og fremst tækifæri til að fá útrás fyrir sköpunargleðina.

Hlökkum mikið til að sjá ykkur – með bestu kveðju
Hrefna, Dýrleif, Gunnhildur, Sirrý og Herdís.


Skráning á öll námskeiðin stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl. Reglan „fyrstur kemur – fyrstur fær“ gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 30.000 ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Skólasetning er laugardaginn 11. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Húnavöllum kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 19. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.
Aðstaða að Húnavöllum: Svefnherbergin eru búin 2 rúmum án rúmfata, skáp, litlu borði og tveim stólum. Góðum dýnum verður bætt inn á stærstu herbergin og þau þannig gerð þriggja manna. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvort öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á öll námskeiðin er 59.500 kr. Það skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn. Þátttökugjald á Höfundar í heimsókn er 45.000. Staðfestingargjald allra er kr. 30.000 kr. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða með greiðslukorti.

Umsókn má senda á netfangið info@leiklist.is og leggja staðfestingargjaldið inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239


sigrunFramhaldsnámskeið fyrir leikstjóra
Leikstjórn II – kennari Sigrún Valbergsdóttir
Þátttökugjald: kr. 59.500
Tími: 11. til 19. júní 2011
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Sigrún Valbergsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og nam síðar leikhúsfræði við háskólann í Köln. Hún hefur leikstýrt um 50 sýningum, jöfnum höndum með atvinnu- og áhugafólki, á Íslandi og í Færeyjum og haldið auk þess mörg námskeið í leiklist og leikstjórn, hér heima og erlendis. Einnig hefur hún þýtt og skrifað fyrir leikhús. Sigrún hefur verið framkvæmda-stjóri Bandalags íslenskra leikfélaga, leikhússtjóri Alþýðuleikhússins, framkvæmdastjóri erlendra verkefna hjá Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 og kynningarstjóri Borgarleikhússins. Hún starfar núna sem leikstjóri og leiðsögumaður.
Þetta er í tíunda sinn sem Sigrún kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leikstjórn I við skólann eða hafa umtalsverða reynslu af leikstjórn.

Á þessu námskeiði verða leikrit skoðuð í heild. Hver nemandi einbeitir sér að einu verki til að vinna út frá. Verkefnið kynnir hann sér í a.m.k. mánuð áður en skólinn hefst.
Í sameiginlegum umræðum gerir hann grein fyrir ýmsum þáttum sem að uppsetningunni snúa. Rætt verður um höfund og þann tíma sem verkið gerist á. Einnig verður farið í gegnum þá þætti sem taka þarf ákvörðun um áður en æfingar hefjast. Fundin meginsögn verksins og persónur þess ræddar. Leikstjóri ákveður stíl og leggur fram hugmyndir að útfærslu í leikmynd og búningum. Leikstjóri vinnur síðan a.m.k. eina senu úr leikritinu með leikurum.

Farið verður í gegnum ýmsa gagnlega þætti í hugmyndaöflun og grunnvinnu áður en komið er að útfærslu. Hvar á að leita hugmynda og hvernig nýtast þær? Hvenær á að velja og hafna?

Jafnframt er æskilegt að þátttakendur kynni sér þau verk sem samnemendurnir vinna að til að umræður verði markvissar.


runarSérnámskeið fyrir leikara
Kennari Steinunn Knútsdóttir

Ath. Rúnar Guðbrandsson mun kenna
námskeiðið í forföllum Steinunnar.

Þátttökugjald: kr. 59.500
Tími: 11. til 19. júní 2011
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Rúnar Guðbrandsson nam leiklist í Danmörku og starfaði þar sem  leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann  m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro og hjá leikhópi Jerzy  Grotowskis í Wroclaw í Póllandi. Hefur auk þess sótt námskeið hjá  m.a. Bread and Puppet Theatre, Dario Fo, Jury Alschitz, Anatoly  Vasiliev, Nadine George, Annelise Gabbold, ofl. Meðlimur ISTA, International School of Theatre Anthropology, síðan 1995. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester í Englandi og leggur nú lokahönd á doktorsverkefni sitt í fræðunum. Rúnar hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara, auk ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar. Hann var fyrsti prófessor í leiktúlkun við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Rúnar var einn af stofnfélögum Lab Loka 1992 og hefur síðan verið helsti hugmyndafræðingur og leikstjóri hópsins (www.labloki.is).
Þetta er í fjórða sinn sem Rúnar kennir við skólann

Námskeiðið er ætlað þeim sem:
1. Hafa sótt Leiklist I og II í Leiklistarskóla BÍL eða sambærileg grunnnámskeið
ásamt því að hafa einhverja reynslu af leiklist.
2. Hafa umtalsverða reynslu af leiklist.

Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum grundvallarskilning á vinnu leikarans með leikverkið. Leitast verður við að skerpa á skilningi nemenda á samvinnu og samspili leikara og unnið að greiningu, byggingu og samsetningu sena. Unnið verður með undirbúning fyrir senuvinnu og nemendum gefinn kostur á að kljást við opnar senur samhliða æfingum sem lúta að hlustun og samvinnu.

Unnið verður með tvö ólík leikverk, eitt klassískt og annað nýtt verk. Í gegnum vinnu með verk frá ólíkum tíma og samanburð á þeim, skerpum við skilning á þeirri grundvallartækni sem þarf til að greina og vinna með senur og karakter en um leið þeirri sérstöku tækni/leikstíl sem ólík verk kalla á.

Ætlast er til að nemendur lesi verkin tvö og tileinki sér tvær senur sem undirbúning fyrir námskeiðið.


agustaskulaFramhaldsnámskeið fyrir leikara
Leiklist II – kennari Ágústa Skúladóttir
Þátttökugjald kr. 59.500
Tími: 11. til 19. júní 2011
Staður: Húnvallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Ágústa Skúladóttir lærði leiklist hjá Monicu Pagneux í Paris og Philippe Gauliere í London. Hún var fastráðin leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu um tíma og leikstýrði þar m.a. Klaufum og kóngsdætrum sem fékk Grímuna sem besta barnasýningin 2005, Eldhúsi eftir máli, (Menningarverðlaun DV 2006) og Umbreytingu. Águsta hefur leikstýrt fjölda sýninga med sjálfstæðu leikhúsunum, t.d. Sellofon eftir Björk Jakobsdóttur og Bólu-Hjálmar hjá Stoppleikhópnum en sú sýning hlaut Grímuna sem barnasýning ársins 2009. Önnur verkefni eru t.d. Ástardrykkurinn í Íslensku Óperunni, Sjöundá með Halaleikhópnum, Grimms-ævintýri hjá Leikfélagi Kópavogs, sem valin var athyglisverðasta áhugasýning Þjóðleikhússins árið 2002, Memento Mori hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik sem valin var framlag Íslands á NEATA-hátíðina 2006 og á IATA-hátíðina í Suður-Kóreu 2008. Ágústa leikstýrði færeysku sýningunni Havgird sem sýnd var á NEATA-hátíðinni í Hofi 2010 og nú síðast leikstýrði hún Ballinu á Bessastöðum í Þjóðleikhúsinu.
Þetta er í sjöunda sinn sem Ágústa kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa hafa sótt námskeið í leiklist og hafa einhverja reynslu af sviðsleik. Nemendur sem sóttu Leiklist I árið 2010 ganga fyrir.

Námskeiðið byggir á þeim grundvallarþáttum sem voru uppistaðan á Leiklist I; útgeislun og léttleika leikarans, samspili við meðleikara og áhorfendur og samvinnu í hópi, en að þessu sinni verður gengið lengra og unnið verður með leiktexta.
Þátttakendur munu fá sendar fyrirfram tveggja manna senur úr klassískum leikritum (Shakespeare/Chekov, nánar tilkynnt síðar), sem þeir þurfa að kunna utanbókar en HLUTLAUST áður en skóli hefst og rannsökuð verður sú umbreyting sem á sér stað þegar mismunandi leikstílum er beitt á viðkomandi senur. Hvað gerist þegar sena er leikin dramatískt? Eða tragíkómiskt? Melódramatískt? Hvernig fara tveir búffonar með senuna? Eða tveir trúðar? Einnig verður litið á hvernig kórinn, þ.e. allir hinir, geta mynd- og hljóðskreytt leiksenuna, hvernig virkar hún best? Með einum söngvara, þremur eða stórum hópi?

Eins og fyrr byggist þetta námskeið á mikilli virkni allra þátttakanda sem þora að taka áhættu, prófa og mistakast, prófa og takast og vera stöðugt á tánum!

 


Höfundar í heimsókn
Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 11. til 19. júní 2011
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

 

Blundar í þér skáld – ertu að burðast með hugmynd – áttu hálfskrifað handrit – vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?

Í fyrra var bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða höfundum að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.

Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda. Þá geta höfundar nýtt sér aðstöðu í einni af kennslustofunum.

Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!