Árið 2010 markar tímamót í sögu Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Frá upphafi hefur skólinn átt aðsetur sitt að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal en núna á þessu fjórtánda starfsári verður skólinn fluttur um set og settur að Húnavallaskóla í Húnavatnshreppi. Eins og kunnugt er þá hefur það lengi verið markmið Bandalagsins að reyna að tryggja betur aðgengi fatlaðra að starfsemi skólans og nú höfum við fundið húsnæði sem við viljum láta á reyna.

Húsabakkaskóli hefur verið hreiður og hjarta skólastarfsins frá upphafi og við tökum með okkur ríkulegar minningar um fallegt umhverfi, góðan anda, vináttu og stuðning. Um leið er það tröllatrú okkar að hinn eini sanni skólaandi fylgi okkur hvert sem við förum og að á nýjum stað finnum við hinn sama ógleymanlega kraft, sköpun og gleði.

Bæklingur skólans starfsárið 2010 er hér á PDF formi.

Að þessu sinni verða þrjú námskeið í boði og sem fyrr hefur skólanefnd lagt sig fram um að fá færustu kennara sem völ er á. Sumarið 2010 verður lögð áhersla á byrjendanámskeið. Ágústa Skúladóttir mun kenna Leiklist I og leiða nýliðana inn í undraveröld leiklistarinnar eins og henni einni er lagið. Ágústa hefur kennt fjölbreytt námskeið við skólann en þetta er í annað sinn sem hún kennir Leiklist I. Þá er það fagnaðarefni að fá Sigrúnu Valbergsdóttur til liðs við okkur enn og aftur. Þetta verður í fjórða sinn sem Sigrún kennir Leikstjórn I, sem segir allt sem segja þarf um hinn trausta og staðgóða grunn sem námskeiðin hennar eru fyrir leikstjóraefni. Að lokum er okkur ánægjuefni að bjóða Þórhildi Örvarsdóttur velkomna aftur með framhald af hinu vinsæla námskeiði frá því í fyrra um röddina í leikhúsinu út frá Complete Vocal Technique kerfinu.


Skráning á öll námskeiðin stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl.
Reglan „Fyrstur kemur – fyrstur fær“ gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 20.000 ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leiti. Leggið inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239.
Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður.
Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans
.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 12. til 20. júní að Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu.

Skólasetning er laugardaginn 12. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Húnavöllum kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 20. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða að Húnavöllum: Svefnherbergin eru búin 2 rúmum án rúmfata, skáp, litlu borði og tveim stólum. Góðum dýnum verður bætt inn á stærstu herbergin og þau þannig gerð þriggja manna. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvort öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á öll námskeiðin er 50.000 kr. Það skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur og kennslugögn. Þátttökugjald á Höfundar í heimsókn er 38.000 kr.
Staðfestingargjald er kr. 20.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða með greiðslukorti.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.


sigrun Grunnnámskeið fyrir leikstjóra
Leikstjórn I – kennari Sigrún Valbergsdóttir

Þátttökugjald: kr. 50.000
Tími: 12. til 20. júní 2010
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Sigrún Valbergsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og nam síðar leikhúsfræði við háskólann í Köln. Hún hefur leikstýrt um 50 sýningum, jöfnum höndum með atvinnu- og áhugafólki, á Íslandi og í Færeyjum. Hún hefur einnig haldið fjölmörg námskeið í leiklist og leikstjórn, hér heima og erlendis. Sigrún var framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leikfélaga 1983-1988. Hún var framkvæmdastjóri erlendra verkefna hjá Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000, kynningarstjóri Borgarleikhússins 2001-2005 og starfar núna sem leikstjóri og leiðsögumaður.
Þetta er í níunda sinn sem Sigrún kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa einhverja reynslu af starfi í áhugaleikhúsi og vilja auka við þekkingu sína með það fyrir augum að spreyta sig í leikstjórn.

Verksvið og ábyrgð leikstjórans – vinnan með leikurunum.

Í fyrirlestri og umræðum verður farið fræðilega í gegnum ferli uppsetningar í leikhúsi. Greiningarvinnu verða gerð sérstök skil. Undirbúningsvinna leikstjórans verður skoðuð og staldrað við hina ýmsu verkþætti sem hann ber ábyrgð á og tekur endanlega afstöðu til, svo sem leikmyndavinnu, hljóðmynd, búningagerð, leikmunagerð, hönnun lýsingar, hárgreiðslu, förðun o.s.frv. Einnig undirbúning og skipulag frá degi til dags.

Meginhluti námskeiðsins er verklegur. Þar verður sjónum beint að nokkrum grundvallaratriðum í vinnunni með leikurunum. Þar verður unnið með leikrit og senur sem þátttakendur verða búnir að kynna sér fyrirfram. Við skoðum t.d. persónugreiningu, vendipunkta, fókus ofl. Einnig verður unnið með spuna sem aðferð til undirbúnings við val á leikurum og til að leita leiða á lausnum og útfærslu.

 


thorhilduro

Röddin í leikhúsinu II
Kennari Þórhildur Örvarsdóttir

Þátttökugjald: kr. 50.000
Tími: 12. til 20. júní 2010
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Þórhildur Örvarsdóttir hóf söngnám í Tónlistarskóla FÍH árið 1993. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann á Akureyri og síðan í Söngskólann í Reykjavík. Þaðan útskrifaðist hún vorið 2000. Árið 2005 hélt hún í framhaldsnám til Danmerkur í Complete Vocal Institute og útskrifaðist þaðan vorið 2008 sem söng/raddkennari (Authorised CVT teacher). Hún hefur sótt fjölmörg námskeið m.a. hjá Elly Ameling, Martin Isepp, Cathrine Sadolin, Bonna Søndberg, Felix Bergsyni og Sigríði Ellu Magnúsdóttur svo eitthvað sé nefnt. Þórhildur hefur komið víða við í tónlist. Hún hefur starfað í leikhúsi, sungið aðalhlutverk í söngleikjum og óperum, spilað og gefið út efni með þjóðlagahljómsveitinni Mór og sungið inná fjölmargar bíómyndir. Hún var stjórnandi Kvennakórs Akureyrar um tveggja ára skeið. Þórhildur hefur kennt við leiklistardeild Listaháskóla Íslands, Kvikmyndaskóla Íslands og Complete Voca
l Studio.
Þetta er í annað sinn sem Þórhildur kennir við skólann.

Námskeiðið er framhald frá fyrra ári og ætlað þeim sem það sóttu en hentar einnig þeim sem hafa góðan grunn í Complete Vocal Technique kerfinu.

Á námskeiðinu er unnið útfrá Complete Vocal Technique kerfinu þar sem öll hljóð mannsins eru leyfileg og heilbrigði raddarinnar er ávallt höfð í fyrirrúmi. Á námskeiðinu verður tæknilegur skilningur nemandans dýpkaður og aukin áhersla lögð á að flétta saman tækni og túlkun. Mest verður unnið með Masterclass-formið en einnig í minni hópum.

Námskeiðið er tvískipt:
Fræðilegur hluti. „Grunnatriðin þrjú“ og mikilvægi þeirra verður skoðað bæði útfrá raddheilbrigðis og raddhljóms sjónarhorni. Farið verður mjög vel í fjóra gíra/stillingar raddarinnar, einkenni og reglur og hlustunargreining þjálfuð. Einnig verða unnin verkefni, litlar rannsóknir  þar sem ólíkar raddir og sögvarar úr ólíkum tegundum tónlistar eru skoðaðir. Texti og túlkun fær einnig sitt vægi.

Verklegur hluti. Þar er unnið með tækni, túlkun, spuna og hendingamótun beint í gegnum tónlist og texta. Nemendur munu vinna samsöngsverkefni og dúetta. Kennslan fer fram sem Masterclass þar sem allir eru virkir þáttakendur – allan tímann.

Söngvararnir/leikararnir læra að vinna af ábyrgð með eigin rödd og að þekkja möguleika sína og
takmarkanir. Nemendur skulu undirbúa lög og talaðan texta til að vinna með á námskeiðinu.

Alltaf er unnið með þann grunn sem hver og einn hefur.

 


agustaGrunnnámskeið fyrir leikara
Leiklist I – kennari Ágústa Skúladóttir
Þátttökugjald kr. 50.000
Tími: 12. til 20. júní 2009
Staður: Húnvallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Ágústa Skúladóttir lærði leiklist hjá Monicu Pagneux í Paris og Philippe Gauliere í London. Hún var fastráðin leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu um tíma og leikstýrði þar m.a. Klaufum og kóngsdætrum sem fékk Grímuna sem besta barnasýningin 2005, Eldhúsi eftir máli, (Menningarverðlaun DV 2006) og Umbreytingu. Águsta hefur leikstýrt fjölda sýninga med sjálfstæðu leikhúsunum, t.d. Sellofon eftir Björk Jakobsdóttur og Bólu-Hjálmar hjá Stoppleikhópnum en sú sýning hlaut Grímuna sem barnasýning ársins 2009. Önnur verkefni eru t.d. Ástardrykkurinn í Íslensku Óperunni, Sjöundá með Halaleikhópnum, Grimms-ævintýri hjá Leikfélagi Kópavogs, sem valin var athyglisverðasta áhugasýning Þjóðleikhússins árið 2002, Memento Mori hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik sem valin var framlag Íslands á NEATA-hátíðina 2006 og á IATA hátíðina í Suður-Kóreu 2008.
Þetta er í sjötta sinn sem Ágústa kennir við skólann.

Námskeiðið er grunnnámskeið fyrir leikara og þeir ganga fyrir sem ekki hafa sótt Leiklist I. Næsta sumar verður haldið framhaldsnámskeið sem byggir á þessu námskeiði.

Á námskeiðinu verður farið í grunnatriði í list leikarans. Lögð verður áhersla á að leysa úr viðjum frumorku, einlægni og sköpunargleði, samband leikarans við sjálfan sig, meðleikara og áhorfendur. Unnið verður með líkamsbeitingu og texta og einnig verður kíkt á mismunandi leikaðferðir eða leikstíla eins og t.d. trúðleik-harmleik-Bouffon og melodrama.
Nemendur munu takast á við agann sem þarf að vera til staðar í stórum, stílfærðum hópsenum en einnig verður farið í spuna í smærri hópum, tvíleik og stuttum einleikjum.

Mikilvægi liðsheildar hóps verður ríkjandi þáttur námskeiðsins því þegar hlustun og leikgleði ráða ríkjum getur allt gerst!

Mottó námskeiðsins: Einn fyrir alla – allir fyrir einn!!

 


Höfundar í heimsókn
Þátttökugjald: kr. 38.000
Tími: 12. til 20. júní 2010
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Frá upphafi skólastarfs hafa reglulega verið haldin námskeið fyrir leikritahöfunda eða höfundasmiðjur þar sem höfundar hafa notið leiðsagnar færustu kennara. Flest leikskáldin sem sótt hafa námskeið Bandalagsskólans hafa rómað þennan tíma sem fengist hefur til að skapa og skrifa.

Í sumar verður ekki í boði leiðsögn fyrir höfunda en hins vegar verður bryddað upp á þeirri skemmtilegu nýbreytni að bjóða höfundum að dvelja á staðnum við skapandi skrif. Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda. Þá geta höfundar hreiðrað um sig í sérstakri kennslustofu sem tekin verður frá fyrir þá eða hvar sem þeim hugnast að sleppa ímyndunarafli sínu lausu.

Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta spennandi tækifæri til að fá loksins hugmyndina, skrifa leikþáttinn, gera grindina, byrja á leikritinu, skrifa, endurskrifa, skrifa aftur og enn og vinna og vinna í meistaraverkinu!