Leiklistarskóli Bandalags ísl. leikfélaga var settur á laugardaginn að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal. Þar er í ár boðið uppá þrjú námskeið; grunnnámskeið í leikritun, kennari Bjarni Jónsson, Leiklist II – framhaldsnámskeið fyrir leikara, kennari Ágústa Skúladóttir og sérnámskeið fyrir leikara, kennari Rúnar Guðbrandsson. Nemendur á námskeiðunum eru samtals 41.

hopur.jpg

Að venju voru nýnemar „busaðir“. Vígsluna önnuðust eldri nemendur en af meðfylgjandi mynd að dæma var um trúarlega athöfn að ræða. Þær skólastýrur Dýrleif Jónsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir hópuðu síðan öllum nemendum saman til myndatöku fyrir Leiklistarvefinn og er ekki annað að sjá en allir hafi komist óskaðaðir frá uppákomunni.

Skólanum verður slitið á hádegi sunnudaginn 15. júní.

Sjá umræður á spjallborði