Leiklistarskóli Bandalagsins 2009

Leiklistarskóli Bandalagsins 2009

Þá er komið að því að kynna námskeiðin sem til stendur að halda á komandi starfsári Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Eins og áður verða sumarnámskeið haldin að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal og hefur skólanefnd sem fyrr lagt sig fram um að fá færustu kennara sem völ er á til að kenna við skólann.

Eins og kynnt var í fyrra ákvað skólanefnd að huga sérstaklega að námskeiðum um tæknina í leikhúsinu. Þegar er lokið grunnnámskeiði í leikhúslýsingu og nú í vor er boðið upp á sérnámskeið um samþættingu tækni í leikhúsinu. Kennari er Egill Ingibergsson og verður námskeiðið haldið í Listaháskóla Íslands sem við þökkum kærlega fyrir samstarfið. Næsta haust ráðgerum við einnig að bjóða upp á námskeið í leikmynda-, búningahönnun og leikgervum.

Skráningu er lokið á öll námskeiðin að Húsabakka og eru þau öll fullbókuð.

Námskeiðið Samþætting tækni í leikhúsinu hefur verið fellt niður vegna ónógrar þátttöku!

 


 

kennarar2009Námskeiðin 2009

Það er okkur sönn ánægja að kynna námskeið sumarsins sem hefjast þetta þrettánda skólaárið þann 13. júní 2009. Að þessu sinni verður lögð áhersla á námskeið fyrir þá sem hafa grunn eða reynslu af leiklist. Boðið er upp á framhaldsnámskeið í leikritun, kennari er Bjarni Jónsson sem fylgir hér eftir námskeiði sem hann hélt hjá okkur í fyrsta sinn í fyrra þar sem færri komust að en vildu. Þá verður Rúnar Guðbrandsson með námskeið fyrir þá sem eru reiðubúnir að reyna svolítið á sig! Þetta verður með svipuðu sniði og námskeið sem Rúnar hélt árið 2001 og lifir enn í minni þeirra sem sóttu. Skólanefnd er hér m.a. að mæta óskum nemenda sem sóttu sérnámskeið hjá Rúnari 2005 og 2008 og lýstu sérstaklega áhuga á að kafa dýpra í einhverja af þeim aðferðum sem kynntar voru. Að lokum er okkur einstök ánægja að bjóða velkomna í fyrsta sinn Þórhildi Örvarsdóttur sem verður með spennandi námskeið um röddina í leikhúsinu út frá Complete Vocal Technique kerfinu.

Skráning á öll námskeiðin stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl. Umsóknum er hægt að skila á netfangið info@leiklist.is. Taka skal fram nafn, kennitölu, heimilsfang, símanúmer og netfang og leggja staðfestingargjaldið inn á 1150-26-5463, kt. 440169-0239. Einnig skal senda ferilskrá þar sem um inntökuskilyrði er að ræða. Ef inntökuskilyrðum er fullnægt gildir „fyrstur kemur fyrstur fær“.

Námskeið skólans eru opin öllu áhugafólki um leiklist, innan leikfélaganna sem utan. Reynslu og menntunar er ekki krafist umfram það sem kemur fram í lýsingu einstakra námskeiða.

Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður.
Aldurstakmark í skólann er 18 ár.

(Starfstími skólans á þessu ári er frá 27. maí til 1. júní að Sölvhólsgötu 13 í Reykjavík (húsnæði leiklistardeildar Listaháskóla Íslands) og frá 13. til 21. júní að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal.
Skólasetning í Reykjavík er kl 14.00 miðvikudaginn 27. maí og skólaslit eru kl. 15.00 mánudaginn 1. júní (annan í Hvítasunnu).)

Skólasetning að Húsabakka er laugardaginn 13. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 21. júní. Nemendur eru velkomnir að Húsabakka kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00.
Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við slit allra námskeiðanna.

Aðstaða að Húsabakka: Gist, borðað og kennt er í húsnæði Húsabakkaskóla og Félagsheimilinu Rimum. Herbergin eru venjuleg heimavistarskólaherbergi með kojum og skrifborði. Möguleiki er á því að eitthvað verði um gistingu á dýnum á gólfum. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug er á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvort öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á öll námskeiðin er 45.000 kr. Það skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi á Húsabakka er gisting, matur og kennslugögn.
(Matur og gisting eru ekki innifalin í námskeiðsgjaldinu í Reykjavík.)
Staðfestingargjald er kr. 15.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða með greiðslukorti.

Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

 


 

bjarnijo.jpgFramhaldsnámskeið í leikritun
Kennari Bjarni Jónsson
Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 13. til 21. júní 2009
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Bjarni Jónsson lauk námi í leikhúsfræði, nútímasögu og norrænum fræðum frá Ludwig-Maximillians Universität í München árið 1992.  Frá árinu 1994 hefur hann starfað sem leikskáld, dramatúrg og þýðandi, m.a. fyrir Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Nemendaleikhúsið, Leikfélag Íslands, Ríkisútvarpið og EGG-leikhúsið.
Leikrit Bjarna eru: Korkmann, sem hlaut 2.-3. verðlaun í leikritasamkeppni LR 1989; Mark, sviðsett af Skagaleikflokknum 1994; Kaffi sem Þjóðleikhúsið sýndi á Litla sviðinu veturinn 1998 og á evrópsku leikritahátíðinni Bonner Biennale þá um sumarið. Verkið var flutt í Vesturþýska útvarpinu í Köln árið 2000 og tilnefnt fyrir Íslands hönd til norrænu leikskáldaverðlaunanna árið 2000; Vegurinn brennur, sýnt á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins veturinn 2004; Híbýli vindanna og Lífsins tré, leikgerðir byggðar á samnefndum sögum Böðvars Guðmundssonar, sýndar í Borgarleikhússins 2005; Óhapp!, sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu veturinn 2007-08, en verkið var tilnefnt fyrir Íslands hönd til norrænu leikskáldaverðlaunanna 2008; Falið fylgi,
sýnt hjá Leikfélagi Akureyrar veturinn 2009; Ísvélin, leikrit fyrir unga leikara, á vegum Þjóðleiks.  
Bjarni er mikilvirkur þýðandi og hefur einnig unnið leikgerðir, skrifað fyrir útvarp og leikstýrt á þeim
vettvangi. Hann hlaut norrænu útvarpsverðlaunin 2004 fyrir Svefnhjólið sem hann leikstýrði í samvinnu
við hljómsveitina m ú m og Hjört Svavarsson. Jólin 2008 frumflutti Ríkisútvarpið samvinnuverkefni hans
og m ú m, Augu þín sáu mig, sem byggir á samnefndri skáldsögu eftir Sjón.
Þetta er í annað sinn sem Bjarni kennir við skólann.

Á þessu námskeiði verður megin áhersla lögð á sjálfstæð vinnubrögð. Þátttakendur verða allir að vera með í smíðum það sem kallast getur heils-kvölds-verk í leikhúsi (a.m.k. 70 mín. í sýningu). 
Leikritin skulu ætluð fullorðnu fólki.

Þátttakendur munu vinna að þessum verkum sínum meðan á dvölinni stendur. Hópurinn kemur saman dag hvern, í ca. 1 og 1⁄2 tíma í senn. Þá verða tekin fyrir ýmis atriði sem ráða oftar en ekki úrslitum um það hvort leiktexti stendur eða fellur þegar komið er á svið. M.a. verður fjallað um mikilvægi persónu-sköpunar, myndræna nálgun á textagerð, hlutverk áhorfandans þegar kemur að smíði leikrita, einnig hina skelfilegu sjálfsvitund höfundarins.

Þess utan skipuleggur kennari dagleg viðtöl við hvern og einn, þar sem gefst kostur á að fara nánar ofan í saumana á hverju verkefni fyrir sig; finna styrkleika þess og galla.

 


 

thorhilduro.jpgRöddin í leikhúsinu
Kennari Þórhildur Örvarsdóttir
Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 13. til 21. júní 2009
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Þórhildur Örvarsdóttir hóf söngnám í Tónlistarskóla FÍH árið 1993. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann á Akureyri og síðan í Söngskólann í Reykjavík. Þaðan útskrifaðist hún vorið 2000. Árið 2005 hélt hún í framhaldsnám til Danmerkur í Complete Vocal Institute og útskrifaðist þaðan vorið 2008 sem söng/raddkennari (Authorised CVT teacher).
Hún hefur sótt fjölmörg námskeið m.a. hjá Elly Ameling, Martin Isepp, Cathrine Sadolin, Bonna Søndberg, Felix Bergsyni og Sigríði Ellu Magnúsdóttur svo eitthvað sé nefnt.
Þórhildur hefur komið víða við í tónlist. Hún hefur starfað í leikhúsi, sungið aðalhlutverk í söngleikjum og óperum, spilað og gefið út efni með þjóðlagahljómsveitinni Mór og sungið inná fjölmargar bíómyndir.
Þórhildur hefur mikla reynslu af söng og raddkennslu bæði með börnum og fullorðnum. Hún hefur fengist við einkakennslu um langt skeið og raddþjálfað smærri og stærri hópa, sett upp söngleiki og margt fleira. Hún var stjórnandi Kvennakórs Akureyrar um tveggja ára skeið. Þórhildur starfar nú sem söngkennari leiklistardeildar Listaháskóla Íslands.
Þetta er í fyrsta sinn sem Þórhildur kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa einhverja reynslu af sviðsleik eða söng á sviði eða sem hafa sótt námskeið í leik eða söng.

Á námskeiðinu er unnið útfrá Complete Vocal Technique kerfinu þar sem öll hljóð mannsins eru leyfileg og heilbrigði raddarinnar er ávallt haft í fyrirrúmi. Þáttakendur fá tækifæri til að gera tilraunir og víkka út eigin rödd auk þess að styrkja sína eigin tækni.

Námskeiðið er tvískipt:
• Fræðilegur hluti. Þar er fjallað um röddina, líffræði hennar, heilbrigði og möguleika. Á þessum fyrirlestrum eru viðfangsefnin t.d. öndun og stuðningur, raddlitur, stillingar/gírar raddarinnar, effektar  o.fl. Farið er í æfingar sem tengjast hverju viðfangsefni.
• Verklegur hluti. Þar er unnið með tækni og túlkun beint í gegnum tónlist og texta. Kennslan fer fram sem master-class þar sem þátttakendur læra sjálfir og hverjir af öðrum. Þar eru allir  virkir þátttakendur – allan tímann.
Söngvararnir/leikararnir læra að vinna af ábyrgð með eigin rödd og að þekkja möguleika sína og takmarkanir.
Alltaf er unnið með þann grunn sem hver og einn hefur og allir fá að halda sínum stíl og sérkennum óáreittir. Það ert þú nemandi góður sem ræður ferðinni og ég hjálpa þér að komast á leiðarenda.

Nemendur skulu undirbúa lög og talaðan texta til að vinna með á námskeiðinu.


  

runar.jpgSérnámskeið fyrir leikara
Kennari Rúnar Guðbrandsson
Þátttökugjald kr. 45.000
Tími: 13. til 21. júní 2009
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Rúnar Guðbrandsson nam leiklist í Danmörku og starfaði þar sem  leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann  m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro og hjá leikhópi Jerzy  Grotowskis í Wroclaw í Póllandi. Hefur auk þess sótt námskeið hjá  m.a. Bread and Puppet Theatre, Dario Fo, Jury Alschitz, Anatoly  Vasiliev, Nadine George, Annelise Gabbold, ofl. Meðlimur ISTA, International School of Theatre Anthropology, síðan 1995. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester í Englandi og leggur nú lokahönd á doktorsverkefni sitt í fræðunum. Rúnar hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara, auk ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar. Hann var fyrsti prófessor í leiktúlkun við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Rúnar var einn af stofnfélögum Lab Loka 1992 og hefur síðan verið helsti hugmyndafræðingur og leikstjóri hópsins (www.labloki.is).
Þetta er í fjórða sinn sem Rúnar kennir við skólann

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa reynslu í leikhúsi. Þeir ganga fyrir sem sótt hafa Leiklist I og II eða sambærileg námskeið eða hafa talsverða reynslu af sviðsleik.

Námskeiðið snýst um tækni, þjálfun og sköpun leikarans og sækir m.a. innblástur í „Leikhús grimmdarinnar” (Antonin Artaud), „Fátæka leikhúsið” (Jerzy Grotowski) og „Þriðja leikhúsið” (Eugenio Barba). Til að byrja með verður farið í atriði er lúta að leiktækni, – sjálfu handverki leikarans, því hversu skapandi sem við erum, þá höfum við engan farveg til að beina sköpunarkrafti okkar í – ef okkur skortir tækni. Áherslan verður því fyrst um sinn á formið (tækni) fremur en innihaldið. Þátttakendum verður síðan gert að nýta sér þá tækni sem þau hafa tileinkað sér á skapandi hátt og verður þá unnið með ýmis konar spunatækni og samsetningar. Áherslan færist þá frá forminu að innihaldinu.

Áhersla verður lögð á persónulega og einlæga tjáningu og í því sambandi unnið með æfingar þar sem þátttakendur nota sína eigin reynslu (t.d.minningar) og ímyndunarafl (langanir, vonir, ótta, drauma o.s.frv.) til að skapa leikrænar aðstæður og athafnir. Þátttakendur skulu velja eða semja sjálf texta (bundið mál eða óbundið sem tekur ca. 1-2 mín. í flutningi) til að vinna með. Mikilvægt er að textinn skipti viðkomandi máli fyrir einhverra hluta sakir (málefnalega, tilfinningalega …) og að viðkomandi kunni textann utanbókar (afturábak og áfram) á fyrsta degi. Einnig er gott að hafa eins og eitt sönglag í handraðanum (lag og texta, – þó ekki sé nema eitt erindi). Ath. að námskeiðið getur verið líkamlega krefjandi fyrir nemandann.

Lykilorð: Útgeislun, nærvera, líkami, rödd, hugsun, tilfinning, rými, tími, þyngd, jafnvægi, mótstaða, flæði, taktur, samræmi, einbeiting, hlustun, samspil, nákvæmni, endurtekning, form, bygging (strúktúr), frásögn, augnablik, orka, öndun, slökun og svo framvegis ….

  

egill.jpgSamþætting tækni í leikhúsinu – FELLT NIÐUR

(Kennari Egill Ingibergsson
Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 27. maí til 1. júní 2009
Staður: Sölvhólsgata 13, 101 Reykjavík
Skráning hefst 15. mars og lýkur 4. maí

Egill Ingibergsson, leikmynda- og ljósahöfundur er tæknistjóri leiklistardeildar Listaháskóla Íslands og formaður Félags leikmynda- og búningahöfunda.
Egill varð stúdent frá Flensborgarskóla 1980, stundaði nám í mannfræði við Háskóli Íslands,1983 – 1985 og í rafeindavirkjun við Iðnskóla Hafnarfjarðar/Iðnskóla Reykjarvíkur 1987 – 1989.
Egill hefur lýst ótölulegan fjölda leiksýninga frá árinu 1983 til dagsins í dag, bæði hjá atvinnu- og áhugaleikhúsum. Einnig hefur hann gert myndbandsverk, hannað hljóð, leikmyndir og búninga fyrir fjölda leiksýninga.
Egill fékk Grímuna fyrir lýsingu ársins 2004, sýningin var Meistarinn og Margaríta í uppsetningu Hafnarfjarðarleikhússins. Einnig fékk hann tilnefningu til Grímunnar 2006 fyrir lýsingu ársins fyrir sýninguna Forðist okkur í uppsetningu Nemendaleikhúsissins.
Þetta er í annað sinn sem Egill kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað lengra komnum í tæknivinnu við leikhús. Nauðsynlegt er að þátttakendur búi yfir góðri grunnþekkingu á tækni og tölvum. Æskilegt er að nemendur hafi þokkalega kunnáttu á ETC Express ljósaborð, skilji hvernig hljóðkerfi eru uppbyggð og hafi einhverja innsýn í vinnu með myndbönd. Námskeiðið ætti þannig að nýtast jafnt hljóð- og ljósamönnum.

Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur fái innsýn í heim tæknisamþættingar eða ShowControl og geti eftir það notað tölvubúnað til samkeyrslu ljósa, hljóðs og myndbands.
Einnig verður farið lítillega í notkun skynjara sem áhrifaþátt í keyrslu kjúa.

Með sífelldri þróun tölvutækninnar hafa orðið til leiðir og forrit sem gera manni kleift að flétta saman hljóð, ljós og myndband í eina heild og jafnvel nýja hluti með s.s. gagnvirka tækni. Þetta kallar á yfirsýn allra tækniþátta og auðvitað heildsteypta sýn á verkefnið. Með því að nýta sér þessa tækni, má búa til sýningar sem eru miklu flóknari og nákvæmari en ella og framkvæma galdra sem næstum væru óhugsandi ella.
Kennsla er í formi fyrirlestra, sýnikennslu, umræðna og verklegra æfinga.

Notast verður við eftirfarandi hugbúnað við kennsluna:
Qlab frá Figure53 – SFX frá Stage Research – Max/MSP og Jitter frá Cycling74, Adobe Photoshop – Motion frá Apple – Audacity o.fl.)

 

0 Slökkt á athugasemdum við Leiklistarskóli Bandalagsins 2009 930 06 mars, 2009 Skólinn mars 6, 2009

Áskrift að Vikupósti

Karfa