Við kynnum með stolti námskeiðin sem Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga ráðgerir að halda að Húsabakka í Svarfaðardal dagana 7. til 15. júní 2008.

Að þessu sinni verður boðið upp á Leiklist II sem hefðbundið er að gera í kjölfar Leiklistar I. Kennari er Ágústa Skúladóttir en námskeiðin hennar hafa alltaf verið gríðarlega vinsæl og vel sótt. Þá bjóðum við velkominn aftur Rúnar Guðbrandsson sem mun bjóða upp á sérnámskeið fyrir reyndari leikara. Hann var síðast með svipað námskeið árið 2005 sem nemendur lofuðu í hástert. Þetta árið höfum við svo fengið Bjarna Jónsson til að bjóða upp á grunnnámskeið í leikritaskrifum en slíkt hefur ekki verið haldið síðan árið 2002. Þarna vonumst við til að koma til móts við vaxandi fjölda leikskálda innan Bandalags íslenskra leikfélaga.

Skráning hefst 15. mars og stendur til 15. apríl

 

Námskeið skólans eru opin öllu áhugafólki um leiklist, innan leikfélaganna sem utan. Reynslu og menntunar er ekki krafist umfram það sem kemur fram í lýsingu einstakra námskeiða.
Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár.
Starfstími skólans á þessu ári er frá 7. til 15. júní að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal og einhverjar helgar veturinn 2008-9 (sjá neðst á síðunni).
Skólasetning á Húsabakka er laugardaginn 7. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 15. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit. Nemendur eru velkomnir að Húsabakka kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00.

Aðstaða: Gist, borðað og kennt í húsnæði Húsabakkaskóla. Herbergin eru venjuleg heimavistarskólaherbergi með kojum og skrifborði. Möguleiki er á því að eitthvað verði um gistingu á dýnum á gólfum. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug er á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvort öðru með dansi og söng.

Skráning stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl.

Sendið inntökubeiðni á netfangið info@leiklist.is og takið fram eftirfarandi atriði:

Hvaða námskeið er óskað eftir að sækja og tilgreinið hvernig inntökuskilyrðum er fullnægt.

Nafn, kennitölu, heimili, póstfang, síma og netfang

Staðfestingargjald er kr. 15.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða með greiðslukorti. Þátttökugjald er 45.000. Það skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi á Húsabakka er gisting, matur og kennslugögn.

 


bjarnijo.jpgGrunnnámskeið í leikritun
Kennari Bjarni Jónsson

Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 7. til 15. júní 2008
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Bjarni Jónsson lauk námi í leikhúsfræði, nútímasögu og norrænum fræðum frá Ludwig-Maximillians Universität árið 1992. Hann hefur starfað sem leikskáld, dramatúrg og þýðandi, m.a. fyrir Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, Nemendaleikhúsið, Leikfélag Íslands, Ríkisútvarpið og EGG-leikhúsið.
Leikrit Bjarna eru: Korkmann, sem hlaut 2.-.3 verðlaun í leikritasamkeppni LR 1989; Mark, sviðsett af Skagaleikflokknum 1994; Kaffi sem Þjóðleikhúsið sýndi á Litla sviðinu veturinn 1998, en uppsetning leikhússins var sýnd á evrópsku leikritahátíðinni Bonner Biennale sama sumar og leikritið flutt í Vesturþýska útvarpinu í Köln árið 2000. Verkið var tilnefnt fyrir Íslands hönd til norrænu leikskáldaverðlaunanna árið 2000; Vegurinn brennur, sýnt á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins veturinn 2004; Híbýli vindanna, byggt á samnefndri sögu Böðvars Guðmundssonar, sýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins veturinn 2005; Lífsins tré, byggt á samnefndri sögu Böðvars Guðmundssonar, sýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins haustið 2005; Óhapp!, sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu veturinn 2007-08.
Bjarni er einnig mikilvirkur þýðandi og hefur unnið leikgerðir og leikstýrt í útvarpi. Hann hlaut norrænu útvarpsleikhússverðlaunin 2004 fyrir Svefnhjólið sem hann leikstýrði í samvinnu við hljómsveitina m ú m og Hjört Svavarsson.
Þetta er í fyrsta sinn sem Bjarni kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á leikritun, jafnt byrjendum sem lengra komnum.

Að hugsa dramatískt …
Markmiðið með námskeiðinu er að hvetja þátttakendur til þess að líta á leikritun sem sérstakt fag. Fjallað verður um leikritun sem órjúfanlegan hluta leikhússins, í stað þess að greina eðlisþætti hennar og hugsun á bókmenntalegum forsendum. Fyrir utan upplýsingar um tæknileg atriði leikritunar, ábendingar og æfingar, verður lögð áhersla á að fólk taki virkan þátt í umræðum um leikhúsið sem miðil og það sem kalla mætti dramatíska hugsun.

Þátttakendur skulu hafa með sér eftirfarandi leikrit: Hamlet e. Shakespeare, Kirsuberjagarðinn e. Tjékov og Dag vonar e. Birgi Sigurðsson. Verkin verða send þátttakendum fyrir námskeiðið og höfð til hliðsjónar meðan á námskeiðinu stendur.


agustaskula.jpgLeiklist II – Framhaldsnámskeið fyrir leikara
Kennari Ágústa Skúladóttir

Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 7. til 15. júní 2008
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Ágústa Skúladóttir lærði leiklist hjá Monicu Pagneux í Paris og Philippe Gauliere í London. Einnig tók hún mastersnámskeið hjá
Theatre de Complicite, John Wright, David Glass og Bruce Meyers. Hún starfaði í nokkur ár í London sem leikkona og uppistandari. Ágústa var fastráðin leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu um tíma og leikstýrði þar m.a. Klaufum og kóngsdætrum sem fékk Grímuna sem besta barnasýningin 2005, Halldóri í Hollywood, Stórfenglegri, Eldhúsi eftir máli (menningarverðlaun DV 2006) og Umbreytingu. Hún leikstýrði einnig Memento Mori hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik sem valin var framlag Íslands á NEATA-hátíðina 2006 og á IATA hátíðina í Suður-Kóreu 2008. Þá leikstýrði hún Undir Hamrinum hjá Hugleik; Svarfdæla sögu hjá Leikfélagi Dalvíkur; Bingói hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik og Grimms ævintýrum hjá Leikfélagi Kópavogs sem var valin athyglisverðasta áhugasýning Þjóðleikhússins árið 2002.
Þetta er í fimmta sinn sem Ágústa kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa einhverja reynslu af sviðsleik eða hafa sótt námskeið í leiklist. Nemendur sem sóttu Leiklist I árið 2007 ganga fyrir.

Námskeiðið byggir á þeim grundvallarþáttum sem voru uppistaðan á Leiklist I; útgeislun og léttleika leikarans, samspili við meðleikara og áhorfendur og samvinnu í hópi, en að þessu sinni verður gengið lengra og unnið verður með leiktexta.

Þátttakendur munu fá sendar fyrirfram tveggja manna senur úr klassískum leikritum (Shakespeare/Chekov, nánar tilkynnt síðar), sem þeir þurfa að kunna utanbókar en HLUTLAUST áður en skóli hefst og rannsökuð verður sú umbreyting sem á sér stað þegar mismunandi leikstílum er beitt á viðkomandi senur. Hvað gerist þegar sena er leikin dramatískt? Eða tragíkómiskt? Melódramatískt? Hvernig fara tveir búffonar með senuna? Eða tveir trúðar? Einnig verður litið á hvernig kórinn, þ.e. allir hinir, geta mynd- og hljóðskreytt leiksenuna, hvernig virkar hún best? Með einum söngvara, þremur eða stórum hópi?

Eins og fyrr byggist þetta námskeið á mikilli virkni allra þátttekanda sem þora að taka áhættu, prófa og mistakast, prófa og takast og vera alltaf stöðugt á tánum!


runar.jpgSérnámskeið fyrir leikara
Kennari Rúnar Guðbrandsson

Þátttökugjald kr. 45.000
Tími: 7. til 15. júní 2008
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Rúnar Guðbrandsson nam leiklist í Danmörku og starfaði þar sem leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro og hjá leikhópi Jerzy Grotowskis í Wroclaw í Póllandi. Hefur auk þess sótt námskeið hjá m.a. Bread and Puppet Theatre, Dario Fo, Jury Alschitz, Anatoly Vasiliev, Nadine Gorge, Annelise Gabbold, ofl. Meðlimur ISTA, International School of Theatre Anthropology, síðan 1995.
Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester í Englandi og leggur nú lokahönd á doktorsverkefni sitt í fræðunum. Rúnar hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara, auk ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar. Hann var fyrsti prófessor í leiktúlkun við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Rúnar var einn af stofnfélögum Lab Loka 1993 og hefur síðan verið helsti hugmyndafræðingur og leikstjóri hópsins.
Þetta er í þriðja sinn sem Rúnar kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa reynslu í leikhúsi. Þeir ganga fyrir sem sótt hafa Leiklist I og II eða sambærileg námskeið eða hafa talsverða reynslu af sviðsleik eða leikstjórn.

Á námskeiðinu verða kynntir mismunandi leikstílar og ólíkar aðferðir við að greina og túlka leikverk.
Námskeiðið verður að hluta til fræðilegt, en einkum þó verklegt. Þátttakendum verða sendar stuttar senur til að kynna sér (og helst að læra utanað) áður en námskeiðið hefst. Hver dagur hefst síðan á fyrirlestri, fyrirspurnum og umræðum um tiltekinn leikstíl, því næst verður „vorksjoppað“ í nokkra stund, þar sem allur hópurinn vinnur saman með æfingar og hugmyndir tengdar viðkomandi leikstíl.
Seinni partinn vinnur fólk í smærri hópum og pörum með áðurnefndar senur og spreytir sig á að beita þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið. Í lok dagsins verður svo afraksturinn skoðaður og ræddur.
Síðustu dagana vinnur svo hver hópur (pör) eina senu í einum tilteknum stíl og flytur hana að lokum fyrir áhorfendur.

Þeir leikstílar sem unnið verður með:
Commedia dell’arte. Kerfi Stanislavskys (Stanislavskys system) og ameríska „metóðan“ (The American method, t.d. hugmyndir Lee Strassberg, Stellu Adler, Sanford Meisner). Leikstíll Bertolds Brecht (Epíska leikhúsið). Fátæka leikhúsið, (Jerzy Grotowski). Dansleikhús.
… og hugsanlega eitthvað fleira.

Auk leikatriðanna munu þátttakendur fá lesefni til fróðleiks og er æskilegt að þátttakendur séu læsir á enska tungu.


Helgarnámskeið veturinn 2008-9:

gretab.jpgFramhaldsnámskeið í leikhúsförðun
Kennari Gréta Boða
Þátttökugjald: kr. 15.000
Tími: 24. til 26. október 2008
Staður: Nánar auglýst síðar

Gréta Boða er hárkollu- og förðunarmeistari. Hún lærði fagið í Þjóðleikhúsinu og London. Hún hefur 35 ára reynslu af vinnu í leikhúsi og sjónvarpi, við bíómyndir og auglýsinga- og ljósmyndaförðun.
Gréta hefur oft áður kennt förðun og hárkollugerð við skólann.

Námskeiðið er sjálfstætt framhald af byrjendanámskeið frá fyrra ári, ætlað þeim sem einhverja reynslu hafa af förðun fyrir leikhús og/eða hafa sótt byrjendanámskeið.

 

Kennd verður „karakterförðun“, unnið með latex, skalla, krephár og fleiri efni sem notuð eru til að breyta og bæta ásýnd leikarana á sviðinu.
Kennt verður að búa til skallahettur, setja þær á og farða. Einnig að búa til skegg, augabrúnir og barta úr kréphári og líma það á. Latex, Tuplast og fleira notað til að gera fólk eldra, ásamt förðuninni sjálfri.
Notaðar verða förðunarvörur frá Grimas og Kryolan.


Nánari upplýsingar um öll helgarnámskeiðin sem fyrirhuguð eru næsta vetur verða sendar út í haust. Til viðbótar förðunarnámskeiðinu eru þessi m.a. á dagskránni:

Byrjendanámskeið í leikhúslýsingu
Framhaldsnámskeið í leikhúslýsingu
Gervi, leikbúningar og leikmynd