Boðið er upp á námskeið fyrir leikstjóra og leikara að Húsabakka í Svarfaðardal dagana 10.-18. júní og fyrir förðunarfólk að Laugavegi 96 helgarnar 13.-15. og 27.-29. október. Kennarar verða Sigrún Valbergsdóttir, Ágústa Skúladóttir, Steinunn Knútsdóttir og Gréta Boða. Skráning í skólann hefst þann 15. mars.  Umsóknum er hægt að skila á netfangið info@leiklist.is og leggja staðfestingargjaldið inn á 1150-26-5463, kt. 440169-0239.  Takið eftirfarandi atriði fram við skráningu:

Nafn Númer námskeiðs Kennitala Heimilisfang Heima- vinnu- og GSM símanúmer Netfang

Skráningu á námskeiðin að Húsabakka lýkur 10. maí.


ATH! Hægt að er að hlaða bæklingnum niður sem PDF-skrá hér

sigrunNámskeið nr. 1 Framhaldsnámskeið í leikstjórn – Leikstjórn II

Kennari Sigrún Valbergsdóttir
Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 10. til 18. júní 2006
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 10. maí

Ætlað þeim sem hafa sótt byrjendanámskeið í leikstjórn eða hafa reynslu af leikstjórn.

Á þessu námskeiði verða leikrit skoðuð í heild. Hver nemandi einbeitir sér að einu verki til að vinna út frá. Verkefnið kynnir hann sér í a.m.k. mánuð áður en námskeiðið hefst.
Í sameiginlegum umræðum gerir hann grein fyrir ýmsum þáttum sem að uppsetningunni snúa. Rætt verður um höfund og þann tíma sem verkið gerist á. Einnig verður farið í gegnum þá þætti sem taka þarf ákvörðun um áður en æfingar hefjast. Fundin meginsögn verksins og persónur þess ræddar. Leikstjóri ákveður stíl og leggur fram hugmyndir að útfærslu í leikmynd og búningum. Leikstjóri vinnur síðan a.m.k. eina senu úr leikritinu með leikurum.
Farið verður í gegnum ýmsa gagnlega þætti í hugmyndaöflun og grunnvinnu áður en komið er að útfærslu. Hvar á að leita hugmynda og hvernig nýtast þær? Hvenær á að velja og hafna?
Jafnframt er æskilegt að þátttakendur kynni sér þau verk sem samnemendurnir á námskeiðinu eiga að vinna til að umræður verði markvissar.

Sigrún Valbergsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1970, nam leikhúsfræði við háskólann í Köln 1975-1978 og hefur unnið við leiklist í aldarfjórðung, aðallega sem leikstjóri. Hún hefur leikstýrt yfir 40 sýningum, jöfnum höndum í atvinnuleikhúsum, útvarpsleikhúsinu og með áhugaleikfélögum víða um land. Hún hefur einnig haldið fjölmörg námskeið, hér heima og erlendis. Sigrún var framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leikfélaga 1983-1988. Hún var framkvæmdastjóri erlendra verkefna hjá Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 og starfar núna sem leikstjóri. Þetta er í áttunda sinn sem Sigrún kennir við skólann.

agustaNámskeið nr. 2 – Fullbókað
Sérnámskeið fyrir leikara
Kennari Ágústa Skúladóttir

Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 10. til 18. júní 2006
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 21. apríl

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa einhverja reynslu af leiklist án þess að hafa endilega sótt undirbúningsnámskeið. Þeir sem ekki hafa sótt sambærilegt námskeið hjá Ágústu í Leiklistarskóla BÍL ganga fyrir.

Hvernig segirðu sögu?
Á námskeiðinu verður unnið markvisst að því að sviðsetja smásögu.
Byggt er á aðferðinni „devised theatre“, þ.e. þegar hópurinn vinnur saman á æfingaferlinu að því að sviðsetja og finna leiklausnir fyrir verkið. Þegar unnið er á þennan hátt er hópurinn aðalatriðið, aðalpersónan, og oftar en ekki þurfa allir að vera meira eða minna virkir allan tímann. Samtenging leikara og hlustun þeirra á milli þarf að vera mjög öguð og farið verður í undirstöðuaðferðir til að efla slíka hlustun.
Í upphafi verður einnig litið á ólikar leikaðferðir til að segja sömu söguna, t.d. Bouffon, trúðleik eða melodrama.

Ágústa Skúladóttir lærði leiklist hjá Monicu Pagneux í Paris og Philippe Gauliere í London. Einnig tók hún Mastersnámskeið hjá Theatre de Complicite, John Wright, David Glass, Bruce Meyers og Trestle Theatre Company. Hún starfaði í nokkur ár í London sem leikkona og uppistandari og er einn af stofnendum leikhópsins Icelandic Take Away Theatre og hefur unnið að 10 sýningum félagsins sem leikari, höfundur eða leikstjóri. Ágústa er um þessar mundir fastráðin leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu og leikstýrði þar m.a. Klaufum og kóngsdætrum sem fékk Grímuna sem besta barnasýningin 2005. Þetta er í þriðja sinn sem Ágústa kennir við skólann.

steinunnknNámskeið nr. 3
Sérnámskeið fyrir leikara
Kennari Steinunn Knútsdóttir

Þátttökugjald kr. 45.000
Tími: 10. til 18. júní 2006
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 10. maí

Námskeiðið er ætla þeim sem:
1. Hafa sótt grunnnámskeið í Leiklistarskóla BÍL og hafa einhverja reynslu af leiklist.
2. Hafa umtalsverða reynslu af leiklist.

Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum grundvallarskilning á vinnu leikarans með leikverkið. Leitast verður við að skerpa á skilningi nemenda á samvinnu og samspili leikara og unnið að greiningu, byggingu og samsetningu sena. Unnið verður með undirbúning fyrir senuvinnu og nemendum gefinn kostur á að kljást við opnar senur samhliða æfingum sem lúta að hlustun og samvinnu.
Unnið verður með tvö ólík leikverk, eitt klassískt og annað nýtt verk. Í gegnum vinnu með verk frá ólíkum tíma og samanburð á þeim, skerpum við skilning á þeirri grundvallar tækni sem þarf til að greina og vinna með senur og karakter en um leið þeirri sérstöku tækni/leikstíl sem ólík verk kalla á. Ætlast er til að nemendur lesi verkin tvö og tileinki sér tvær senur sem undirbúning fyrir námskeiðið.

Steinunn Knútsdóttir lauk BA námi í Guðfræði við Háskóla Íslands, stundaði leiklistarnám í Árósum í Danmörkum og lauk síðar meistaranámi í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester, Englandi. Hún er með diploma í leikstjórn frá SCUT (scandinavisk centrum för utvikling af teater) en þar nam hún undir stjórn Jurij Alschits í Moskvu, Berlín og Bari, Ítalíu. Steinunn hefur unnið með ýmsum leikhópum og sviðslistahópum í Danmörku og Englandi, bæði sem leikari og leikstjóri. Steinunn hefur aðallega numið land í framsæknum leikhúsum, oft nátengt dansi og myndlist og tekið þátt í mörgum rannsóknarverkefnum á sviði sviðslista. Steinunn hefur leikstýrt og stundað leiklistarkennslu hérlendis og erlendis. Hún var annar af tveimur listrænum stjórnendum Lab Loka, sem hefur staðið fyrir rannsóknum og tilraunum á sviði sviðslista í fjölda ára. Hún vinnur nú sem dramatúrg í Borgarleikhúsinu og leiktúlkunarkennari við leiklistadeild LHÍ. Þetta er í fyrsta sinn sem Steinunn kennir við skólann.

gretabNámskeið nr. 4
Byrjendanámskeið í leikhúsförðun
Kennari Gréta Boða

Þátttökugjald: kr. 12.000
Tími: 13. til 15. október 2006
Staður: Laugavegur 96, II hæð
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. september

Grunnförðun í leikhúsi, val á litum og efnisnotkun, hreinsun og umgengni er efni þessa námskeiðs. Kennslan er fræðileg og verkleg, nemendur yfirvinna feimnina við liti og efni með því að farða hverjir aðra undir leiðsögn kennarans.
Notaðar verða förðunarvörur frá Grimas og Kryolan.

Námskeið nr. 5
Framhaldsnámskeið í leikhúsförðun
Kennari Gréta Boða

Þátttökugjald: kr. 14.000
Tími: 27. til 29. október 2006
Staður: Laugavegur 96, II hæð
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. september

Námskeiðið er sjálfstætt framhald af fyrra förðunarnámskeiðinu, ætlað þeim sem einhverja reynslu hafa af förðun fyrir leikhús og/eða hafa sótt byrjendanámskeið.

Kennd verður „karakterförðun“, unnið með latex, skalla, krephár og fleiri efni sem notuð eru til að breyta og bæta ásýnd leikarana á sviðinu.
Kennt verður að búa til skallahettur, setja þær á og farða. Einnig að búa til skegg, augabrúnir og barta úr kréphári og líma það á. Latex, Tuplast og fleira notað til að gera fólk eldra, ásamt förðuninni sjálfri.
Notaðar verða förðunarvörur frá Grimas og Kryolan.

Gréta Boða er hárkollu- og förðunarmeistari. Hún lærði fagið í Þjóðleikhúsinu og London. Hún hefur 35 ára reynslu af vinnu í leikhúsi og sjónvarpi, við bíómyndir og auglýsinga- og ljósmyndaförðun.  Gréta hefur áður kennt förðun og hárkollugerð við skólann.

Frá skólanefnd

Kæru félagar, nú eru tímamót!

Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga tók til starfa að Húsabakka í Svarfaðardal þann 31. maí 1997. Þá var boðið upp á þrjú námskeið, leiklist 1, leikstjórn 1 og textasmiðju. Svo vel tókst til þetta fyrsta ár að það lagði grunninn að starfsemi skólans næstu árin.
Skólinn tekur til starfa í tíunda sinn þann 10. júní næst komandi. Á slíkum tímamótum er óhjákvæmilegt að líta til baka og hugsa til allra þeirra sem sótt hafa námskeið skólans og þannig tekið þátt í mótun hans. Því langar okkur til að hitta allt þetta yndislega fólk og bjóða því að taka þátt í lokahófi skólans, sem að þessu sinni verður haldið á þjóðhátíðardaginn okkar þann 17. júní. Við erum fullar eftirvæntingar og vonumst til að sjá alla þá nemendur, kennara og skólanefndarmenn sem hafa dvalið í Svarfaðardalnum frá upphafi eða tekið þátt í uppbyggingu hans og þróun.
Nú sem áður hefur skólanefnd Leiklistarskólans það að leiðarljósi að fá færustu kennara sem völ er á til að kenna við skólann og það er okkur sérstök ánægja að kynna fyrir ykkur námskeið Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga árið 2006.  

Hlökkum mikið til að sjá ykkur í Svarfaðardalnum í sumar!
Með bestu kveðju, Gunnhildur, Sirrý, Dýrleif, Herdís, Hrefna og Huld

Allt sem þú þarft að vita!

Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga var stofnaður árið 1997.
Markmið hans er tekið beint úr Menningarstefnu BÍL og er á þessa leið:  – að gera áhugafólki kleift að afla sér menntunar í listinni og skapa því aðstöðu til að þroskast í menningarlegu og faglegu tilliti. Námskeið skólans eru opin öllu áhugafólki um leiklist, innan leikfélaganna sem utan. Reynslu og menntunar er ekki krafist umfram það sem kemur fram í lýsingu einstakra námskeiða. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 10. til 18. júní í Húsabakkaskóla í Svarfaðardal og helgarnar 13. til 15. og 27. til 29. október í Reykjavík.

Skólasetning á Húsabakka
er laugardaginn 10. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 18. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit. Nemendur eru velkomnir að Húsabakka kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00.
Aðstaða í Svarfaðardal: Gist, borðað og kennt í húsnæði Húsabakkaskóla. Herbergin eru venjuleg heimavistarskólaherbergi með kojum og skrifborði. Möguleiki er á því að eitthvað verði um gistingu á dýnum á gólfum. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug er á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá og skemmtir hvort öðru með dansi og söng.
Að námskeiði loknu skila kennarar hverjum nemanda umsögn um frammistöðu hans.
Þátttökugjald er 45.000. Það skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi á Húsabakka er gisting, matur og kennslugögn.
Staðfestingargjald er kr. 15.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.

Hægt er að greiða með greiðslukorti. Áhugasömum er bent á að leita eftir styrkjum frá öllum þeim sem hugsast getur, leikfélögunum sínum, bæjarfélögum, stéttarfélögum og stofnunum, svo eitthvað sé nefnt. Meðlimum aðildarfélaga BÍL er bent á að félögin geta sótt um styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.
Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Skólasetningar í Reykjavík eru föstudaginn 13. okt. og föstudaginn 25. okt. kl. 18.00 að Laugavegi 96. Þau kvöld er kennt til kl. 22. Á laugardögunum hefst kennsla kl. 10.00 og kennt er til kl. 18.00 með matarhléi. Á sunnudögunum er kennt frá kl. 10.00 til 16.00 með matarhléi.
Skráning á námskeiðin stendur til 15. september og skal þátttökugjald greiðast við skráningu.

Kennarar skólans og starfsfólk:
Skólameistari ­­— Gunnhildur Sigurðardóttir, gss@hi.is
Aðstoðarskólameistari — Sigríður Karlsdóttir, sirryk@simnet.is
Leikstjórn — kennari Sigrún Valbergsdóttir, sigrunvalb@mmedia.is
Leiklist – kennari Ágústa Skúladóttir, icelandictakeawaytheatre@hotmail.com
Leiklist – kennari Steinunn Knútsdóttir, steinunn@borgarleikhus.is
Förðun – Gréta Boða, gboda@simnet.is