Leiklistin er víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Á Vestfjörðum rekur Elvar Logi Hannesson Kómedíuleikhúsið sem hefur sett upp fjölda áhugaverðra leiksýninga undanfarin ár. Það er þó ekki allt, því Elvar Logi er einnig að skrá leiklistarsöguna. Hann gaf út Leiklist á Bíldudal fyrir nokkrum árum og er nú að gefa út bókina Leiklist á Þingeyri.

Þar rekur hann á fróðlegan og ferskan hátt hina einstöku leiklistar- og listasögu Þingeyrar. Fer reyndar víðar því allur Dýrafjörðurinn er undir enda fall vötn öll þangað hvort heldur er í listinni eða lífinu. Leiklist og list á Þingeyri verður prýdd fjölda mynda frá hinu öfluga leiklistar- og listalífi Þingeyrar og Dýrafjarðar.

Leiklist og list á Þingeyri kemur út í október og verður fáanleg hjá Kómedíuleikhúsinu, Bandalagi íslenskra leikfélaga sem og í bókaverslunum um land allt. Hægt er að tryggja sér bókina á sérstöku forsölutilboði aðeins 2.900.- krónur. Fullt verð er 3.500.- krónur og gildir tilboðið til 10. október Pantanir berist á netfang Kómedíuleikhússins komedia@komedia.is.

Myndin að ofan er úr leiksýningunni Háttvirtur herra þjónn sem sýnd var upp úr 1960. Sú að neðan er úr leiksýningunni Vekjaraklukkunni. Á Facebook-síðu bókarinnar er að finna margar skemmtilegar myndir af leiklistarlífinu á Þingeyri frá fyrri tíð.