Nýjustu straumar og stefnur í leiklistinni miða í sömu átt: Listamennirnir opna dyr leikhússins í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, bæði hvað varðar innihald og form. Dagskrá LÓKAL 2013 er einmitt sett saman í þessum anda: Áhorfendum er boðið upp á einfaldar, kraftmiklar og opnar leiksýningar og hulunni verður svipt af öllum þeim tækjum og tólum sem nýtast við leikhúsgaldurinn, hvort sem það eru kunnugleg meðul eða nýjasta tækni.

Á meðal gesta hátíðarinnar í ár skal fyrst telja hinn margverðlaunaða leikhóp Verk Produksjoner frá Osló sem sýnir „Build Me A Mountain“,skrautlega útfærslu sína á aðferðum Bertolts Brecht. Helsinki-búinn Juha Valkeapää frumsýnir „Executed Stories“, sem er mögnuð umfjöllun hans um hlutverk böðulsins í mannkynssögunni, Friðgeir Einarsson og félagar skjóta upp kollinum í niðurníddum fundarsal í miðborginni þar sem kynnt verður glænýtt námskeið: „Léttari leið að túlkun þeirra á mannlegri leti“.

Theatre Replacement frá Vancouver kemur með sýninguna „Winners&Losers“. Þar stíga á svið tveir vinir í leik sem miðar að því að færa rök fyrir því hverjir séu „flottir“ og hverjir sé „glataðir“. Úr verður einskonar hanaslagur sem er á léttu nótunum framan af en tekur á sig grimmilegri blæ þegar þeir taka að gerast persónulegri í málflutningi sínum. Síðast en ekki síst bendum við áhorfendum á tvö spennandi verkefni eftir ungar konur. Það er annars vegar verkið „Dansaðu fyrir mig“ eftir Brogan Davison og Pétur Ármannsson. Brogan fékk það merkilega verkefni að semja dansverk fyrir tengdaföður sinn, Ármann Einarsson tónlistarkennara, sem hefur alltaf látið sig dreyma um að dansa nútímadans. Og að síðustu frumsýnir sviðslistakonan Ragnheiður Harpa Leifsdóttir nýtt verk sem hún hefur unnið ásamt fjölskyldu sinni.

Sérstakur hátíðarpassi verður til sölu. Hann veitir áhorfendum tækifæri til að sjá 6 sýningar á hátíðinni á gjafverði. Maður kaupir passann, gaumgæfir dagskrána og pantar miða á þær sýningar sem vekja helst athygli manns.
Vinsamlegast athugið að panta miða í tíma þar sem áhorfendafjöldi getur verið takmarkaður á einhverjar sýninganna.

Hátíðarpassinn verður til sölu á KEX Hostel Skúlagötu 28. Tekið er við pöntunum á: tickets@lokal.is og í s. 898 3412 kl. 10.00-16.00

Verðskrá:
Hátíðarpassi – 6 sýningar (miðapantanir á sýningar): kr. 9.900.-
Stakur miði á sýningu: kr. 2.200.-
Stakur miði á sýningu – afsláttarverð (nemendur og ellilífeyrisþegar): 2.000.-