Leiklistarhátíð NEATA fór fram í Anyksciai í Litháen fyrr í mánuðinum og var sýning Leikfélags Kópavogs, Svarti kassinn, framlag Íslands. Sýningin hlaut frábærar viðtökur og nú þegar er leikfélagið með opin boð á leiklistarhátíðar í Rússlandi og Litháen.

NEATA eru samtök áhugaleikhússsambanda á Norðurlöndum og Baltnesku ríkjunum og halda samtökin leiklistarhátíð á 2 ára fresti. Ellefu leiksýningar voru á hátíðinni og voru þær eins fjölbreyttar og þær voru margar. Einnig voru umræðufundir um sýningarnar, vinnustofur með hópunum og síðast en ekki síst hátíðaklúbburinn þar sem mikið var skrafað og planað um leiklist og eitthvað var einnig um dans og drukk. Þá hélt hver hópur kynningu á sínu landi og má fullyrða að íslenski hópurinn hafi vakið sérstaka lukku fyrir frumleg atriði sem ekki verður nánar sagt frá hér.

Allar aðstæður á hátíðinni voru til fyrirmyndar en það hefur alls ekki verið sjálfgefið á þeim hingað til. Gestgjafar buðu upp einnig á áhugaverðar skoðunarferðir og má þar helst nefna hestasafn eitt mikið þar sem munir, myndir og minjar úr sögu hestsins í Litháen voru til sýnis. Íslendingarnir ræddu það sín á milli á eftir, hví í ósköpunum slíkt safn væri ekki til á Íslandi. Bærinn Anyksciai þar sem hátíðin var haldin, er í norðurhluta Litháen. Hann er ekki stór en að mörgu leyti sjarmerandi og skemmtilegur staður. Mikil ánægja var hjá íslenska hópnum með ferðina almennt. Félagið skoðar möguleika á frekari landvinningum með Svarta kassann.