Der Klang der Offenbarung des Göttlichen er leikhús án leikara; verk sem drifið er áfram af magnaðri tónlist Kjartans Sveinssonar og sérstæðum leikmyndum Ragnars Kjartanssonar. Þetta er óhefðbundin leikhúsupplifun, sem gerð var fyrir hið virta Berlínarleikhús Volksbühne og er nú frumsýnt í Borgarleikhúsinu miðvikudaginn 28. maí kl 20. Aðeins eru þrjár sýningar á verkinu og takmarkaður miðafjöldi er í boði.

Ragnar Kjartansson ólst að miklu leyti upp í leikhúsinu þar sem foreldrar hans starfa báðir. Hann minnist þess einkum þegar leikarar voru fjarverandi og tæknirennsli fóru fram á sviðinu. Mikilfenglegar ljósabreytingar, leikmyndir og tónlist fengu óskipta athygli. Þessar bernskustundir úr Iðnó voru Ragnari innblástur þegar hann vann að þessari nýstárlegu leikgerð eftir skáldsögu Halldórs Laxness, Heimsljósi. Í myndlist sinni leitar Ragnar fanga í ólíkum listformum. Að þykjast og sviðsetja eru veigamiklir þættir í listrænni tilraun hans til að miðla tilfinningum af einlægni og veita áhorfendum ósvikna upplifun. Verk hans eru gáskafull um leið og þau eru harmræn. Ragnar hefur tvisvar tekið þátt í hinum virta Feneyjatvíæringi og hafa verk hans meðal annars verið sýnd í MoMA í New York og Carnegie Museum of Art.

Kjartan Sveinsson er lýrískt tónskáld og verk hans eru hyldýpi tilfinninga. Hann hefur um árabil samið tónlist með hljómsveitinni Sigur Rós sem hann var meðlimur í til sautján ára. Síðustu misserin hefur Kjartan stigið fram á sviðið og samið tónverk undir eigin nafni; kór og kammerverk, tónlist fyrir leikhús, kvikmyndir og myndlistarinnsetningar Ragnars.

Þegar verkið var frumsýnt I Berlín í febrúar síðastliðnum fékk það fádæma góðar viðtökur og mikla umfjöllun og verður verkið tekið aftur til sýninga í Volksbühne í sumar og næsta vetur.

Sýningin er samstarfsverkefni Borgarleikhússins, Volksbühne og Listahátíðar í Reykjavík með stuðningi Der Hauptstadtkulturfonds Berlin.

Aðstandendur: Myndlist: Ragnar Kjartansson | Tónlist: Kjartan Sveinsson | Myndrænn dramatúrg: Axel Hallkell Jóhannesson | Dramatúrg: Henning Nass | Hljómsveitarstjóri:  Davíð Þór Jónsson  | Hljómsveit: Deutsches Filmorchester Babelsberg | Kór: Schola cantorum | Málarar: Axel Hallkell Jóhannesson, Ingjaldur Kárason, Lilja Gunnarsdóttir, Ragnar Kjartansson, Victor Cilia og Þorvaldur Gröndal.