Laugardaginn 23. maí klukkan 14:00 frumsýnir Leikhópurinn Lotta splunkunýtt barna- og fjölskylduleikrit eftir Snæbjörn Ragnarsson. Leikritið heitir Rauðhetta og í því er fléttað saman þremur af þekktustu Grimms ævintýrunum, Rauðhettu, Hans og Grétu og Grísunum þremur. Snæbjörn semur einnig tónlist og söngtexta ásamt Baldri Ragnarsyni og Gunnari Ben. Þetta er útisýning og fer frumsýningin fram í svokölluðu Indjánagili í Elliðaárdal. Fólk er eindregið hvatt til að klæða sig eftir veðri.

Leikhópurinn Lotta hefur tvö undanfarin sumur ferðast um landið og sýnt utandyra barnaleiksýningar, fyrst Dýrin í Hálsaskógi og svo Galdrakarlinn í Oz. Sýningarnar hafa jafnan verið vel sóttar og mælst afar vel fyrir og eins og undanfarin sumur verður Lotta á ferð um allt land í sumar. Samhliða æfingum var tekinn upp geisladiskur með öllu leikritinu og verður hægt að kaupa hann á sýningum eða panta á leikhopurinnlotta@gmail.com. Nánari upplýsingar fást í síma 770-0403 eða á www.leikhopurinnlotta.is

{mos_fb_discuss:2}