Leikhópurinn Artik frumsýnir leikritið Blink eftir Phil Porter, sem hlotið hefur nafnið Blik í þýðingu Súsönnu Svavarsdóttur, þann 8. september í Gamla bíói. Leikarar eru Jenný Lára Arnórsdóttir og Hafsteinn Þór Auðunsson en Leikstjóri er Unnar Geir Unnarsson. Blink var frumsýnt 2. ágúst á síðasta ári á Edinborgar leiklistarhátíðinni. Er því um að ræða frumsýningu á íslandi á nýju bresku verki. Artik hefur áður sett upp Hinn fullkomna jafningja eftir Felix Bergsson.

Blik er saga Jonah og Sophie, tveggja einstakra einstaklinga. Blik er ástarsaga, hún er myrk, óvenjuleg og skondin en ástarsaga engu að síður. En hafið í huga að ástin er það sem þér finnst hún vera. Blik er lítið, stórt, kjánalegt, alvarlegt og næstum því fáranlegt.

Phil Porter hafði lengi gengið með hugmyndina að Bliki í maganum, en fann henni loks farveg þegar hann varð meðlimur The Soho Six, höfundasmiðju Soho leikhúsins í london.  En Porter  heillast að litlum leikverkum sem fjalla um stór heimspekileg málefni.  Leikhús Porters er svolítið kjánalegt, svolítið alvarlegt og á köflum daðrar hann við háð og spott.