Hinn nýstofnaði leikhópur Leikhús andanna æfir nú nýtt íslenskt leikverk, Dansaðu við mig, eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann. Æfingar standa yfir í Iðnó, en verkið verður frumsýnt þar þann 24. október næstkomandi. Leikstjórn er í höndum Jóns Gunnars Þórðarsonar, en síðasta sýning sem hann leikstýrði hérlendis, Fool for love, hlaut 7 tilnefningar til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna. Þórdís Elva hefur einnig hlotið tilnefningu til Grímunnar sem leikskáld ársins (2006), auk þess sem Borgarleikhúsið frumsýndi nýlega verkið Fýsn eftir Þórdísi við góðar undirtektir.

Dansaðu við mig er ekki dansverk, þrátt fyrir að bera þetta heiti. Því er lýst sem hugljúfri innsýn í hvað það er að vera manneskja. Leikendur eru tveir, Höskuldur Sæmundsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir. Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu leikhópsins, www.leikhusandanna.blogspot.com, en einnig má senda póst á leikhusandanna@gmail.com. Miðaupplýsingar og leikhústilboð verður hægt að nálgast á www.idno.is
 
Verkið segir frá manni sem hittir konu / konu sem hittir mann.
Það fjallar um
….vondar tímasetningar og fullkomin augnablik.
… fólk sem er svo hrætt við að skuldbindast að það getur ekki einu sinni átt pottablóm.
… fólk sem heldur svo föstu haldi í skuldbindinguna að það týnir sjálfu sér.
… að vera snúið á rönguna og neyddur til að sjá sjálfan sig í nýju ljósi – ljósi með maður hefði síst kosið sér sjálfur.
… lífeðlisfræðing sem heldur því fram að ást sé röð taugaskilaboða, myndlistamann sem elskar tvær konur í einu, ljósmyndara sem býr yfir myrku leyndarmáli og ástkonu með sólgyllta útlimi.
Það er rifist, hlegið, daðrað, drukkið, málað, elskast, leitað og saknað.
Það er dansað á helstu málefnum tilverunnar.
Frumsýnt verður í Iðnó 24. október 2008

Höfundur: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann
Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson
Leikendur: Höskuldur Sæmundsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir
Sviðsmynd: Gunnar Bergmann Stefánsson
Hljóðmynd: Jarþrúður Karlsdóttir

{mos_fb_discuss:2}