Febrúar er mánuður unga fólksins í Borgarleikhúsinu. Miðað verður að því leyfa ungu fólki að kynnast leikhúsmiðlinum. Ekki bara koma í leikhús og láta skemmta sér, heldur kynnast leikhúsinu sem faratæki fyrir skoðanir, tilfinningar og baráttumál.
 
Leikhúsið er öflugur miðill og finnst forráðamönnum Borgarleikhússins það mikilvægt að kynna möguleika þess fyrir ungu fólki.
Borgarleikhúsið hefur boðið nemendum þriggja skólastiga til að  gera verkefni í leikhúsinu, þetta er grunnskólastig, framhaldsskólastig og háskólastig. Þeir skólar sem taka þátt eru Háteigsskóli, Borgarholtsskóli og leiklistardeild Listaháskólans.  Hópi frá hverjum skóla er boðið að koma og kynnast leikhúsinu og  starfsemi þess, og ræða þar við listamenn hússins um leikhúsið, möguleika þess, áhrifamátt og fjölbreytileika. Eftir þessa kynningu vinna hóparnir þrír frumsamin verkefni á fjórum vikum sem sýnd verða á Litla sviði Borgarleikhússins. Í tengslum við verkefnið verður efnt til örleikritasamkeppni fyrir ung leikskáld.
 
Á morgun 7.febrúar koma hóparnir saman í fyrsta sinn og hefja vinnuna og að fjórum vikum liðnum eða þann 7.mars munu þrjú ný verk líta dagsins ljós á litla sviðinu.