Laugardaginn 29. apríl klukkan 17:00 mun Leikfélag Mosfellssveitar sýna á Hvammstanga leikritið Í beinni eftir þá Hrafnkel Stefánsson og Nóa Kristinsson í leikstjórn Guðnýjar Maríu Jónsdóttur. 
Samtals standa um 20 leikarar, hljóðfæraleikarar, tæknimenn og sviðsmenn að sýningunni. 

Leikritið gerist í lokaþætti spjallþáttarins Í beinni sem stjórnað er af hinum stórskemmtilega Benna Gumm. Útsendingin gengur þó ekki átakalaust fyrir sig og hinar óvæntustu uppákomur setja svip sinn á atburðarásina. Þetta er bráðfyndið leikrit sem óhætt er að mæla með fyrir alla fjölskylduna!