Síðastliðinn laugardag frumsýndi Leikfélagið Peðið leikritið Sögur af mannlífsklakanum við frábærar undirtektir áhorfenda. Sýningin fór fram í nýinnréttuðu „leikhúsi“ á  Gallerí Bar 46 að Hverfisgötu 46. Þessi leiksýning er 13 verkið sem Peðið setur upp og er höfundur þess Jón Benjamín Einarsson, leikstjóri er Björn Gunnlaugsson og tónlist er samin og flutt af Magnúsi R. Einarssyni.

Mannlífsklakinn er hálf nöturlegt orð yfir samfélag og fráhrindandi eins og samfélagið sem það lýsir. Orðið er fengið að láni frá Jóhannesi Birkiland, sem átti á sínum tíma í brösum með samferðamennina. Síðan hefur hlýnað töluvert á klakanum. Bæði vegna  náttúruhamfara, sem sjálfsagt er að kenna mannskepnunni um, en ekki síst vegna ylsins af því að setja allt í bál og brand. Það er hitabylgja og nöturlegar aðstæður í íslensku þjóðarsálinni um þessar mundir, því þrátt fyrir myntkörfur, gengisfellingu og verðtryggingu, þarf mannlífið að hafa sinn gang – og hefur sinn gang.

Sögur af mannlífsklakanum er verk um fólk sem í dagsins önn hefur ofan af fyrir sér að lifa lífinu í samneyti við sína líka. Eiginlega bara fólk eins og við.

Næstu sýningar verða:
Fimmtudaginn 14. október kl: 20:00
Laugardaginn 16. október kl: 16:00
Sunnudaginn 17. október kl: 16:00

Þess má geta að leikfélagið Peðið hefur verið tilnefnt sem fulltrúi Íslands á alþjóðlega leiklistarhátíð, sem verður í Tromsö næsta sumar með verkið  Komið og farið eftir Samuel Beckett í leikgerð og leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar og sellóleik Andreu Gylfadóttur.

{mos_fb_discuss:2}